Innlent

Mokað undan brúnni yfir Svaðbælisá

Byrjað var í dag að moka ösku undan brúnni yfir Svaðbælisá á hringveginum undir Eyjafjöllum en í aurflóðum vegna eldgossins fylltist farvegur hennar næstum undir brúargólf.

Sex manna vinnuflokkur frá Suðurverki hóf fyrir hálfum mánuði að ryðja upp varnargörðum við Svaðbælisá til að verja nærliggjandi bæi en einnig að dýpka árfarveginn. Í dag var svo byrjað að moka undan brúnni á hringveginum en ekki var talið óhætt að geyma það of lengi. Sigurður Sigmundsson, verkstjóri hjá Suðurverki, segir að í næsta hlaupi sem komi, sem sé sennilegt, þá muni þjóðvegurinn lokast að óbreyttu.

Svaðbælisá rennur norðan og austan við Þorvaldseyri og svo rækilega fylltist farvegur hennar að aðeins vantaði 40 sentímetra upp að brúargólfi. Menn rifja upp að þegar brúin var byggð lögðu tveir menn úr sveitinni jeppa undir brúnni og gátu svo staðið ofan á þaki jeppans þannig að ætla má að það sé þriggja til fjögurra metra þykkt lag sem moka þarf upp.

Suðurverksmenn giska á að til að gera farveginn þokkalegan, til að taka við næsta hlaupi, þurfi að taka um 200 þúsund rúmmetra af efni. Vegna fjárskorts sé hins vegar óvíst hvað hægt verði að gera mikið.

Raunar þykir þetta efni sem Eyjafjallajökull skilaði af sér afskaplega kræsilegt sem byggingarefni. Sigurður telur að nota mætti það í steypu og það sé ekta pússningasandur. Þetta sé hreint basalt og hið besta efni í sjálfu sér. "En afskaplega andstyggilegt þegar það fýkur framan í mann og yfir allt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×