Viðskipti innlent

Jákvæð viðbrögð við tilboði Marel um skuldabréfakaup

Eigendur samtals 65,65% af útistandandi skuldabréfum í flokki MARL 06 1 hafa tekið skilyrtu tilboði Marel um endurkaup á bréfunum, sem tilkynnt var um þann 1. nóvember síðastliðinn, samtals 1.510 milljónir kr. að nafnverði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Marel. Þar segir að verðið sem tilboðið fól í sér var par verð þess dags sem möguleg endurkaup fara fram. Eftir möguleg endurkaup á skuldabréfunum nema útistandandi

bréf í flokknum 790 milljónum kr. , eða um 13% af heildarflokknum sem er 6.000 milljónir kr. að nafnverði.

Í samræmi við skilmála tilboðsins verður gengið frá endurkaupum þremur viðskiptadögum eftir að Marel tilkynnir að skilyrðum þess um viðunandi fjármögnun félagsins hafi verið fullnægt.

„Við þökkum skuldabréfaeigendum fyrir jákvæðar undirtektir við tilboðinu. Möguleg endurkaup gera félaginu kleift að draga frekar úr gjaldeyrisáhættu auk þess að vera mikilvægt skref í áætlun okkar um að tryggja fyrirtækinu stöðuga og hagkvæma nýja fjármögnun," segir Erik Kaman, fjármálastjóri Marel í tilkynningunni.

„Stefna Marel er að fjármagna félagið í samræmi við tekjusamsetningu. Eins og fram hefur komið eigum við um þessar mundir í formlegum viðræðum við alþjóðlega banka um slíka fjármögnun. "








Fleiri fréttir

Sjá meira


×