Erlent

Fjarlægðu líffæri að nauðsynjalausu

Aðgerðir Læknarnir á læknastofu sem kennd var við heilaga Ritu framkvæmdu 83 óþarfa aðgerðir.Nordicphotos/AFP
Aðgerðir Læknarnir á læknastofu sem kennd var við heilaga Ritu framkvæmdu 83 óþarfa aðgerðir.Nordicphotos/AFP
Átta ítalskir læknar hafa verið dæmdir til fangelsisvistar eftir að hafa framkvæmt yfir 80 aðgerðir á sjúklingum sínum algerlega að nauðsynjalausu. Læknarnir fjarlægðu meðal annars líffæri úr sjúklingunum til að fá greiðslur frá heilbrigðisyfirvöldum.

Læknarnir ráku læknastofu í Mílanó, sem ítalskir fjölmiðlar kalla „hryllingslæknastofu“, að því er fram kemur í frétt BBC. Í það minnsta fimm aldraðir sjúklingar eru taldir hafa látist vegna óþarfra aðgerða sem framkvæmdar voru á læknastofunni.

Yfirskurðlæknirinn á læknastofunni hlaut fimmtán og hálfs árs dóm fyrir helgi fyrir manndráp og fjársvik. Hann hefur þegar tilkynnt að hann muni áfrýja dóminum, og segist vera gerður að blóraböggli í málinu.

Saksóknarar fullyrða að samtals 83 aðgerðir sem gerðar voru á árunum 2005 til 2007 hafi verið óþarfar. Eitt dæmi var 88 ára kona sem var skorin upp þrisvar þegar ein aðgerð hefði dugað. Þá fjarlægðu læknarnir bæði brjóst átján ára stúlku án þess að nokkur þörf væri fyrir aðgerðina. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×