Viðskipti innlent

Össur hagnaðist um 30 milljónir á sölunni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Össur Skarphéðinsson segist ekki hafa búið yfir neinum innherjaupplýsingum. Mynd/ Stefán.
Össur Skarphéðinsson segist ekki hafa búið yfir neinum innherjaupplýsingum. Mynd/ Stefán.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segist hafa selt bréf í SPRON fyrir 62 milljónir árið 2007. Hann hafi hagnast um 30 milljónir króna á sölunni og hafi greitt af því fjármagnstekjuskatt fyrir það ár.

Viðskiptablaðið fjallar í dag um sölu á stofnfjárbréfum Össurar, Árna Þórs Sigurðssonar, þingmanns VG, og fleiri kunnra einstaklinga. Össur segir það út í hött að telja að hann hafi haft nokkrar upplýsingar innan úr SPRON um stöðu fyrirtækisins. „Ég hafði engar upplýsingar aðrar en þær sem lesa mátti í fjölmiðlum, sem bentu til þess að fyrirtækið væri á mjög örri uppleið og miklar vonir við það bundnar," segir Össur Skarphéðinsson.

Össur segist hafa gerst stofnfjáraðili á árunum 1987 og 1988. „Ég hef keypt hluti í Spron frá því tímabili og litið á það sem lífeyrissjóð minnar fjölskyldu. Þegar ég varð ráðherra í sumarbyrjun 2007 taldi ég einfaldlega að það væri hreinlegast fyrir mig að losa mig við þessa eign vegna þess að ég taldi að það væri ekki samrýmanlegt stöðu minni sem ráðherra," segir Össur. Hann hafi því ákveðið að selja hlutina og selt þá sumarið 2007. „Ég seldi fyrir 62 milljónir króna, ég hagnaðist um 30 milljónir króna og ég greiddi af því fjármagnstekjuskatt fyrir það ár," segir Össur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×