Viðskipti innlent

Uppbygging gjaldeyrisforðann gengur hægar en ráðgert var

Uppbygging gjaldeyrisforða landsins gengur hægar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Af þessum sökum eru talsverðar líkur á að afnám gjaldeyrishaftanna dragist á langinn.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar er greint frá því að gjaldeyrisforði Seðlabankans var í lok desember síðastliðinn ríflega 490 milljarðar kr. og hækkaði um 87 milljarða kr. milli mánaða.

Skýrist hækkunin að mestu að í mánuðinum var fyrsti hluti láns frá Norðurlöndunum greiddur til Íslands sem samið var um í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Um var að ræða 300 milljónir evra og þar af tók Seðlabankinn 81 milljón evra að láni eða um 14,5 milljarða íslenskra kr. hjá norska seðlabankanum. Kemur þetta fram í gögnum sem Seðlabankinn birti í gær.

Er gjaldeyrisforðinn nú um þriðjungur af áætlaðri landsframleiðslu síðastliðins árs en við upphaf þess árs nam hann 429 milljörðum kr. Mun hægar hefur gengið að byggja upp gjaldeyrisforðann en upphaflega gert var ráð fyrir sem má einna helst rekja til þess að enn hefur ekki tekist að komast að niðurstöðu um Icesave-málið sem aftur hefur valdið því að ýmsu er tengist uppbyggingastarfinu og efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) hefur dregist á langinn. Þannig var lokið við fyrstu endurskoðun efnahagsáætlunarinnar í lok október, en upphaflega var reiknað með að sú endurskoðun yrði í höfn í febrúar 2009.

Enn eru ódregin umsamin lán að fjárhæð tæplega 2,3 milljarðar evra frá Norðurlöndunum, AGS og Póllandi sem eru háð því að lausn komist í Icesave málinu. En sér ekki fyrir endann á því máli og eru því líkur talsverðar á því að áform um að styrkja gjaldeyrisforðann frekar komi til með að dragast enn á langinn. Með styrkingu forðans er búið í haginn fyrir afnám gjaldeyrishaftanna sem hér hafa verið við lýði frá hruni bankanna í október 2008.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×