Viðskipti innlent

Steingrímur: Íslendingar ekki háðir AGS láni á þessu ári

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur J. Sigfússon segir Íslendinga ekki háða AGS láni á þessu ári.
Steingrímur J. Sigfússon segir Íslendinga ekki háða AGS láni á þessu ári.
Miðað við ástand efnahagsmála í dag getur Ísland vel komist í gegnum þetta ár án láns frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í samtali við norska vefinn e24 í dag.

Vefurinn greinir frá því að fyrir helgi hafi borist fréttir af því að Ísland og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi komið sér saman um aðra endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands með tilheyrandi lánum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Endurskoðunin hefur dregist mánuðum saman.

En þrátt fyrir að Íslendingar séu ekki háðir lánum frá AGS núna segir Steingrímur þó mikilvægt að mál Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum séu komin á hreyfingu. Það sé til þess fallið að draga úr óvissu.

Þá er haft eftir Steingrími að hagkerfið á Íslandi sé aftur farið að þróast í rétta átt eftir miklar sviptingar í upphafi ársins. Hann bendir á að viðskiptajöfnuður sé Íslendingum mjög hagstæður og að jafnvægi sé komið á gengi íslensku krónunnar.

Steingrímur segir jafnframt að það sé mikill munur á stöðu Íslands og Grikklands að því leytinu til að Íslendingar þurfi ekki að endurfjármagna mikil lán á næstu mánuðum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×