Viðskipti innlent

Erlendir aðilar minnka við sig ríkisbréfaeignir

Eignarhlutdeild erlendra aðila í ríkisbréfum hefur minnkað þó nokkuð á fyrstu átta mánuðum ársins. Þannig áttu erlendir aðilar 52% útistandandi ríkisbréfa um síðust áramót en í lok ágúst var hlutdeild þeirra komin niður í 42%.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að ekki hafi þeir þó fært sig yfir í ríkisvíxlana þar sem eignarhlutdeild þeirra í útistandandi víxlum hefur minnkað að sama skapi. Virðast þeir því almennt áhugaminni um ríkisskuldabréf og kann stærri hluti krónueigna þeirra nú að vera í formi innstæðna en verið hefur.

Erlendir aðilar eru enn stærstu eigendur stuttra ríkisbréfa og áttu þeir um 74% af ríkisbréfum sem eru með gjalddaga á árunum 2010 til og með 2013, sem er svipuð hlutdeild og þeir áttu um síðustu áramót.

Á hinn bóginn virðast þeir enn sem komið er hafa lítinn áhuga á nýjasta ríkisbréfaflokknum sem leit fyrst dagsins ljós í ágúst síðastliðnum. Í lok ágúst var flokkurinn 6,8 milljarða kr. af stærð og nam eignarhlutdeild erlendra aðila einungis 3%. Ekki jókst áhugi þeirra á flokknum í útboðinu um hann í september en samkvæmt Markaðsupplýsingum sem Lánamál sendu frá sér í gær kemur fram að erlendir aðilar hafi ekkert keypt í flokknum í því útboði.

Ekki hefur áhugi útlendinga heldur aukist á lengri ríkisbréfum, þ.e. ríkisbréfum sem eru með gjalddaga 2019 og svo 2025, en almennt hafa þeir reynst tregir til að kaupa í lengri flokkum ríkisbréfa enda hafa þeir gjarnan haft það að markmiði að binda fé sitt sem styst hér á landi








Fleiri fréttir

Sjá meira


×