Viðskipti innlent

Fyrirtæki geta hagrætt í rekstri með kaupum á aðgangi að hugbúnaði á netinu.

Eftir því sem tölvur breytast og geymslurými verður minna mun gagnavistun færast í auknum mæli yfir á netið, segir Lars Mikkelgaard-Jensen, forstjóri IBM í Danmörku.Markaðurinn/GVA
Eftir því sem tölvur breytast og geymslurými verður minna mun gagnavistun færast í auknum mæli yfir á netið, segir Lars Mikkelgaard-Jensen, forstjóri IBM í Danmörku.Markaðurinn/GVA
Lítil fyrirtæki þurfa ekki lengur að kaupa dýran hugbúnað og leggja fjármagn í tölvukerfi. Þau geta sparað sér háar fjárhæðir með því að kaupa aðgang að tölvuskýjum (e. cloud computing) á netinu til lengri eða skemmri tíma. Þegar netnotkun eykst með farsímum og spjaldtölvum verður þetta framtíðin í upplýsingatækni.

Þetta segir Lars Mikkelgaard-Jensen, forstjóri tölvurisans IBM á Norðurlöndum, en hann var staddur hér á dögunum.

Þótt tæp hálf öld sé liðin frá því grunnhugmyndin að tölvuskýjum var lögð fram gerðist lítið sem almenningur gat greint fyrr en fyrir um fjórum árum. IBM var eitt þeirra fyrirtækja sem ruddu brautina.

Mikkelgaard-Jensen segir tölvuskýin hafa verið á jaðrinum þar til nú. Um hálft ár sé síðan þau hafi verið mikið í umræðunni sem það heitasta og nýjasta í upplýsingatækni. Nú séu þau öllu hversdagslegri, orðin hluti af daglegum rekstri. Mikkelgaard-Jensen segir ómögulegt að spá fyrir um vöxt tölvuskýja í upplýsingatækni.

„Við vitum það ekki, þetta er svo nýtt fyrir okkur. Fyrir hálfu ári var lítið í gangi. Fyrir þremur mánuðum tókum við eftir snörpum vexti. Það er næstum ómögulegt að spá fyrir um nánustu framtíð með vissu," segir hann en reiknar með að eftirspurn verði eftir gagnavist í tölvuskýjum með breyttri tölvunotkun, það er þegar handfrjálsar og litlar spjaldtölvur á borð við iPad og farsímar með öflugum netvöfrum en tiltölulega litlu geymslurými verða algengari. „Það er engin spurning að tölvunotkun er að færast í þessa átt," segir forstjórinn danski.

- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×