Innlent

Segja eigendavaldi beitt til að fá lán

Brjánn Jónasson skrifar
Starfsmenn Glitnis brutu gegn lánareglum bankans með því að lána félagi Pálma Haraldssonar sex milljarða, samkvæmt stefnu skilanefndar Glitnis. Þeir voru beittir þrýstingi af ráðandi hluthöfum í bankanum til að veita lánið.
Starfsmenn Glitnis brutu gegn lánareglum bankans með því að lána félagi Pálma Haraldssonar sex milljarða, samkvæmt stefnu skilanefndar Glitnis. Þeir voru beittir þrýstingi af ráðandi hluthöfum í bankanum til að veita lánið. Vísir/Heiða
Jón Ásgeir Jóhannesson og Pálmi Haraldsson, sem saman áttu ráðandi hlut í Glitni fyrir hrun, eru sakaðir um að hafa stýrt stjórnendum bankans til að veita félagi í eigu Pálma lán, samkvæmt stefnu skilanefndar Glitnis á hendur þeim og fyrrum stjórnendum hjá bankanum.

Í stefnunni er því haldið fram að Jón Ásgeir og Pálmi hafi hagnast um einn milljarð króna hvor með þessari lánveitingu. Með lánveitingunni var farið á svig við lánareglur bankans, segir í stefnunni.

Pálmi segir í yfirlýsingu að stefnan sé með öllu tilefnislaus, og sýnt verði fram á það í dómsal.

Eins og greint var frá í Fréttablaðinu í gær hefur skilanefnd Glitnis stefnt þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Pálma Haraldssyni, sem áttu í gegnum félög sín ráðandi hlut í Glitni þegar bankinn lánaði félagi Pálma sex milljarða króna. Þá hefur skilanefndin stefnt Lárusi Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis, sem og þremur lykilstarfsmönnum bankans.

Skilanefndin krefur sexmenningana saman um sex milljarða króna skaðabætur. Þeim Jóni Ásgeiri og Pálma er gefið að sök að hafa valdið Glitni fjártjóni með saknæmum og ólögmætum hætti með því að stýra starfsmönnum bankans þegar þeir lánuðu félagi Pálma milljarðana sex. Tilgangur þeirra hafi verið að ná undir sig persónulega þriðjungi lánsins, tveimur milljörðum króna.

Telur skilanefndin að með því hafi þeir Jón Ásgeir og Pálmi misbeitt því valdi sem fólst í því að eiga ráðandi hlut í bankanum.

Í yfirlýsingu sem Pálmi sendi fjölmiðlum í gær kemur fram að rangt sé að hann hafi náð einum milljarði króna út úr Glitni fyrir sig persónulega, eins og haldið sé fram í stefnu skilanefndarinnar.

Jón Ásgeir Jóhannesson.
„Ég hagnaðist ekki persónulega á þessum viðskiptum, heldur var einn milljarður notaður til að greiða inn á lán Fons hf. við Kaupthing Bank í Luxembourg,“ segir í yfirlýsingunni. Það hefði skiptastjórn Glitnis getað séð svart á hvítu í bókhaldi Fons. Það sé tiltækt hjá bústjóra Fons, sem tekið hefur verið til gjaldþrotaskipta.

Lárus Welding og fyrrum samstarfsmenn hans eru sakaðir um að hafa brotið gróflega gegn starfsskyldum sínum með því að hafa veitt lánið. Því hefur Lárus hafnað í yfirlýsingu til fjölmiðla.

Starfsmennirnir eru í stefnu skilanefndarinnar sagðir hafa farið á svig við lánareglur bankans, vitandi að lántakinn væri ógjaldfær, og tryggingar fyrir láninu ónógar.

Þá er Lárus sagður hafa brotið gegn reglum um fjármálafyrirtæki með því að hafa farið eftir ólögmætum fyrirmælum Jóns Ásgeirs og Pálma. Er einnig vísað til þess að Lárus hafi brotið gegn hegningarlögum með því að misnota aðstöðu sína sem forstjóri bankans og formaður áhættunefndar og sett bankann í stórfellda fjártjónshættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×