Erlent

Eiginkona forsætisráðherra Japans lætur allt flakka í bók

Nobuko Kan eiginkona Naoto Kan forsætisráðherra Japans hefur skrifað bók þar sem hún lýsir miklum efasemdum um hæfileika eiginmanns síns til að stjórna landinu.

Bókin hefur vakið mikla athygli í Japan en eiginmanni Nobuko mun ekki skemmt. Þau hjónin hafa verið gift í 40 ár og byggir bókin mikið á því sem gerst hefur í hjónabandi þeirra.

Í bókinni spyr Nobuko meðal annars hvort það sé í lagi að þessi maður sé forsætisráðherra, þar sem hún þekki hann vel. Titill bókarinnar er raunar "Hvað í veröldinni getur breyst í Japan nú þegar þú ert orðinn forsætisráðherra?"

Í bókinni er að finna langar upptalningar á göllum ráðherrans þar á meðal því að hann hafi ekkert vit á tísku og sé ómögulegt að elda mat.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem eiginkonur forsætisráðherra hafa skrifað bækur. BBC rifjar upp að sú síðasta sem gerði slíkt Miyuki Hatoyama sagðist hafa heimsótt plánetuna Venus og hitt Tom Crusie í fyrra lífi sínu þegar leikarinn var japanskur.

Aðspurður um hvort hann hafi lesið bók eiginkonu sinnar segir Naoto Kan að hann þori því ekki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×