Innlent

Lántaki hótaði að mæta með haglabyssu

Reiður lántaki hótaði starfsmanni fjármögnunarfyrirtækis að snúa til baka á skrifstofuna með haglabyssu - væru mál hans ekki leyst. Stjórnendur fjármögnunarfyrirtækjanna eru slegnir yfir þeirri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í gær að ekki verði gripið sérstakra aðgerða vegna dóms Hæstaréttar í myntkörfumálunum.

Fyrirtækin hafa reyndar verið sökuð um að ganga of hart fram í innheimtuaðgerðum og braust út mikil reiði meðal viðskiptavina eftir dómur hæstaréttar lá fyrir. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur svívirðingum rignt yfir starfsmenn þessara fyrirtækja og í einu tilfelli hótaði viðskiptavinur að mæta á svæðið með haglabyssu.

Innheimta gengistryggðra lána er í algjöru uppnámi þar sem í dómi hæstaréttar er ekki að finna neinar leiðbeiningar um uppgjör þessara lána.

Margir lögspekingar líta svo á lánin séu nú óverðtryggð krónulán með þeim erlendum vöxtum sem samið var um í upphafi. Þeir vextir eru mun lægri en hefðbundir vextir á krónulánum.

Þeir sem tóku krónulán þurfa nú einir að bera þungann af hruni krónunnar í gegnum verðtrygginguna og margir spyrja sig um réttlæti þess.

Talað er um tvær leiðir í þessu samhengi, annað hvort að festa verðtryggingu við gengislánin eða setja á þau óverðtryggða vexti í samræmi við það sem gengur og gerist á íslenskum lánamarkaði.

Fundað verður um málið á sameiginlegum fundi efnhags- og skattanefndar og Viðskiptanefndar Alþingis á mánudag. Þá hafa starfsmenn fjármögnunarfyrirtækjanna verið að störfum í allan dag en ef ekki verður fundinn einhver málamyndun er ljóst að tap fyrirtækjanna verður gríðarlegt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×