„Með skráningu eigna á markað fer stór hluti af eignum okkar í einu vetfangi. Þessar eignir sem fóru inn í bankana þurfa að fara úr þeim sem fyrst,“ segir Helgi S. Gunnarsson, forstjóri eignarhaldsfélagsins Regins, dótturfélags Landsbankans. Hann telur dreift eignarhald sem felst í markaðsskráningu farsæla lausn.
Félagið á 32 eignir, að mestu atvinnu- og skrifstofuhúsnæði sem er í útleigu og gefur af sér fastar tekjur. Þar á meðal er Smáralind í Kópavogi og íþrótta- og afþreyingarmiðstöðin Egilshöll í Grafarvogi.
Unnið er nú að skráningu fasteignanna á hlutabréfamarkað.
Fasteignafélag Íslands, sem Saxbygg, félag Nóatúnsfjölskyldunnar svokölluðu og byggingarfélagsins Bygg, stofnuðu utan um rekstur Smáralindar á sínum tíma hefur verið eignalaust frá hruni. Inn í það munu Smáralind og Egilshöll fara ásamt öðrum fasteignum. Helgi útilokar ekki að húsnæði World Class í Laugum fari þangað sömuleiðis.
Framkvæmdastjóri var ráðinn yfir Fasteignafélag Íslands í síðustu viku og tekur fjármálastjóri við í vikunni. Leitað er eftir því að fylla í fleiri stöður eftir því sem nær líður hugsanlegri skráningu. Allir framkvæmdastjórar Smáralindar eru ýmist hættir eða gera það fljótlega.
Smáralind var boðin til sölu í apríl síðastliðnum. Tveir áttu besta boð í félagið. Þeim var báðum hafnað í september.
Helgi segir fjárfesta frá Noregi, Írlandi og fleiri löndum hafa verið áhugasama um kaup á eignum Regins í fyrrahaust og hafi allt verið sett á fullt í fjárhagslegri endurskipulagningu.
„Þeir voru að horfa til verslanamiðstöðva, hótela og fleiri eigna. Skilaboðin frá þeim voru þau að þeir vildu kaupa eignir og eiga í langan tíma,“ segir Helgi og bætir við að allt hafi verið sett á fullt í fjárhagslegri endurskipulagningu eigna félagsins og söluferli skipulagt.
Eftir áramótin hafi áhugi fjárfesta hins vegar tekið að dvína. Bæði hafi dregið úr trausti á íslenskt efnahagslíf, óvissa í stjórnmálum sett strik í reikninginn ofan í gjaldeyrishöft. Þá munaði um að verð á sambærilegum eignum hrundi í Evrópu í fyrravor og leituðu fjárfestar því fremur þangað en hingað.
Gangi áætlanir eftir verður þetta fyrsta fasteignafélagið sem skráð er í Kauphöll hér. Slík félög eru þekkt á mörkuðum hinna Norðurlandanna.
jonab@frettabladid.is