Viðskipti innlent

Fyrirtækin verða til á servíettum

Tuttugu fyrirtæki og hundrað störf hafa orðið til upp úr hugmyndasamkeppninni um Gulleggið.Fréttablaðið/stefán
Tuttugu fyrirtæki og hundrað störf hafa orðið til upp úr hugmyndasamkeppninni um Gulleggið.Fréttablaðið/stefán

Hugmyndasamkeppni Gulleggsins, sem frumkvöðlasetrið Innovit heldur í samstarfi við fjóra háskóla, er í fullum gangi en lokafrestur til að taka þátt í henni og skila inn viðskiptahugmyndum rennur út 20. janúar næstkomandi.

Keppnin hefur verið haldin í tvö ár. Í fyrra bárust 120 hugmyndir í keppnina og urðu fimmtíu að fullmótuðum viðskiptahugmyndum. Á meðal fyrirtækja sem litið hafa dagsins ljós úr henni eru sprotafyrirtækið Clara, Eff², sem þróar tækni og búnað til að greina myndefni sem dreift er ólöglega um Netið, og fjármálafyrirtækið Meniga. Alls hafa tuttugu fyrirtæki og hundrað störf orðið til í tengslum við keppnina.

Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir, sem situr í verkefnastjórn Gulleggsins, segir keppnina opna fyrir alla. Nóg sé að skila grófri hugmynd á servíettu. „Það verður þó að vera hægt að segja frá henni á hálfri vélritaðri blaðsíðu.“ Eftir þetta tekur við sex vikna ferli þar sem aðstandendur Innovit aðstoða þátttakendur við að móta viðskiptaáætlunina frekar. Þá gefst þeim kostur á að sitja sex hagnýt námskeið í stofnun fyrirtækja. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×