Erlent

Kæfði átta börn jafnóðum og þau fæddust

Óli Tynes skrifar

Frönsk kona hefur viðurkennt að hafa myrt átta börn sín jafnóðum og þau fæddust, á tuttugu og tveggja ára tímabili.

Dominique Cottrez er 45 ára gömul og starfar sem sjúkraliði. Upp um hana komst eftir að hún og eiginmaður hennar fluttu í nýtt hús skammt frá því gamla.

Svartir plastpokar

Nýi eigandinn að húsi þeirra var að grafa fyrir gosbrunni síðastliðinn laugardag þegar hann kom niður á tvo svarta plastpoka með smáum beinum í.

Honum datt fyrst í hug að beinin væru af gæludýrum en fannst fundurinn þó svo grunsamlegur að hann hafði samband við lögreglu.

Þar var skjótlega greint að beinin væru af tveim kornabörnum og leit var hafin í garðinum og húsinu. Þar fundust sex plastpokar til viðbótar.

Hjónin voru þá handtekin. Dominique viðurkenndi fljótlega að hún hefði kæft börnin eftir fæðingu og grafið þau í garðinum.

Eiginmanninum sleppt

Hún fullyrti hinsvegar að eiginmaður hennar Pierre-Marie hefði ekkert vitað um börnin. Honum hefur nú verið sleppt án ákæru.

Pierre-Marie er daglaunamaður sem vinnur hjá hinu opinbera.

Hjónin eiga fyrir tvær uppkomnar dætur og eitt barnabarn. Nágrannar þeirra voru sem þrumu lostnir.

Þeir höfðu ekkert nema gott um hjónin að segja. Þau væru vingjarnleg, prúð og hjálpsöm og alltaf reiðubúin að taka þátt í öllum samfélagsverkefnum.

Enginn sá að hún væri ófrísk

Nágrannakona sagði að Dominique væri yndisleg manneskja sem helgaði fjölskyldunni líf sitt.

Hún sagði að enginn hefði vitað til þess að Dominique yrði ófrísk eftir að hún fæddi dæturnar tvær á áttunda áratugnum.

Dominique væri feitlagin og af bændafólki komin þannig að henni hefði líklega tekist að leyna þunguninni.

Dominique á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×