Viðskipti innlent

Landsvirkjun hefur enn ekki fengið lán i Búðarháls

Fjárfestingarbanki Evrópu frestar því enn að afgreiða lán til Búðarhálsvirkjunar. Forstjóri Landsvirkjunar segir ljóst að Icesave sé að tefja málið. Fyrir vikið fá bormenn Ístaks ekki jólagjöfina sem þeir höfðu óskað sér.

Verktakinn, Ístak, er með lágmarksmannskap í vinnu á Búðarhálsi og hefur aðeins heimild til að vinna takmörkuð undirbúningsverk, meðan Landsvirkjun hefur ekki tryggt sér langtímafjármögnun fyrir verkið. Hérlendis höfðu margir gert sér vonir um að lánin fengust í gegn fyrir jól í ljósi nýs Icesave-samnings, ekki síst bormennirnir á Búðarhálsi.

Benedikt Benediktsson, verkstjóri Ístaks á svæðinu, sagði fyrr í mánuðinum í viðtali við Stöð 2 að menn töluðu um aðgangur að fjármagni væri erfiður vegna Icesave en vonaðist til að það yrði jólagjöfin til þeirra að lánin fengust í gegn. En nú virðist útséð um að þeir fái slíka jólagjöf því stjórn Fjárfestingarbanka Evrópu kom saman á þriðjudag, til síns síðasta fundar á árinu, án þess að gefa grænt ljós á lánið fyrir Búðarháls.

Þegar Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, er spurður hvort verið sé með þessu að senda pólitísk skilaboð segir hann ljóst að Icesave sé að tefja fjármögnun. Spurður hvort bankinn sé að setja þrýsting á að Icesave-samningurinn verði lögfestur segir hann erfitt að tjá sig um málefni einstakra lánveitenda en kveðst þó vona að Landsvirkjun fái lánið, hvort sem Icesave klárast eða ekki.

Hörður segir allt verða gert til að halda framkvæmdum við Búðarháls á áætlun en þær verði þó ekki settar á fullt fyrr en langtímafjármögnun sé tryggð. Hann viðurkennir að þótt til þessa hafi tekist að halda Búðarhálsi á áætlun sé þetta að tefja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×