Viðskipti innlent

Jón Steindór hættir hjá Samtökum iðnaðarins

Jón Steindór Valdimarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri SI.
Jón Steindór Valdimarsson, fráfarandi framkvæmdastjóri SI. Mynd/GVA
Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, hefur sagt starfi sínu lausu frá og með morgundeginum. Jón Steindór hefur starfað fyrir Samtök iðnaðarins, og áður Félag íslenskra iðnrekenda, í samtals 22 ár, lengst af sem aðstoðarframkvæmdastjóri en síðustu árin sem framkvæmdastjóri. Tilkynnt verður um ráðningu eftirmann hans áður en langt um líður.

„Starf mitt í þágu iðnaðarins hefur verið ákaflega skemmtilegt og gefandi. Verkefnin hafa verið fjölbreytt og krefjandi og á þessum tíma hefur orðið bylting í atvinnumálum Íslendinga. Ég hef notið þess að leggja mitt af mörkum og búa í haginn fyrir iðnaðinn frá degi til dags en ekki síður að tryggja honum nauðsynleg starfskilyrði innan Evrópu og skapa svigrúm fyrir vöxt nýrra greina sem skapa vinnu og velferð," segir Jón Steindór. „Eftir svona langan tíma á sama vettvangi fer ekki hjá því að maður leiði hugann að því að breyta til og hasla sér nýjan völl. Nú er sá tími kominn. Það er skynsamlegt að rétta öðrum keflið þegar maður telur sig hafa lokið góðum spretti og er sáttur við árangurinn."

Helgi Magnússon, formaður samtakanna, segist skilja og virða ákvörðun Jóns Steindórs. „Jón Steindór hefur staðið sig vel og unnið mikið og þarft verk fyrir iðnaðinn. Það er eftirsjá að honum og stjórn og starfsfólk SI þakkar vel unnin störf og óskar honum alls hins besta í framtíðinni."

Helgi segir að um skeið hafi verið unnið að því að finna Samtökum iðnaðarins nýjan framkvæmdastjóra og sé hann fundinn. Tilkynnt verði um ráðningu hans innan skamms.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×