Viðskipti innlent

Útflæði vaxtagreiðslna veikti gengi krónunnar töluvert

Töluverð veiking varð á gengi krónunnar í gær og telur greining Íslandsbanka að það megi rekja til útflæðis vaxtagreiðslna til erlenda aðila af ríkisbréfaflokknum RIKB10 sem féll á gjalddaga tíunda þessa mánaðar.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að sem kunnugt er áttu erlendir aðilar bróðurpart útistandandi bréfa í flokknum, eða sem nemur um 93%, en flokkurinn var í októberlok rétt tæpir 82 milljarðar kr. að nafnvirði að stærð að meðtöldum lánum frá útgefanda til aðalmiðlara.

Ef erlendir fjárfestar ákveða að fara með alla þá fjárhæð sem þeir fá vegna vaxtagreiðslna af RIKB10, sem eru 13,75% af höfuðstól, má gróflega áætla að útflæði vegna þeirra geti numið tæpum 10 milljörðum kr.

"Þó teljum við nú ólíklegt að svo verði raunin, enda bendir reynslan til þess að talsverður hluti heimilda vegna slíkra vaxtagreiðslna hafi jafnan verið ónýttur til þessa," segir í Morgunkorninu.

"Þessi hreyfing á gengi krónunnar kemur ekki spánskt fyrir sjónir enda þarf ekki mikið til þess að hreyfa við gengi myntar þar sem flæði á gjaldeyrismarkaði er jafn takmarkað og á krónunni. Nú í morgunsárið hefur þróunin þó ekki haldið áfram og hefur gengi krónunnar verið stöðugt."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×