Viðskipti innlent

ESA rannsakar ríkisstuðning við Sjóvá

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hóf í dag formlega rannsókn á veitingu ríkisstyrks við endurfjármögnun tryggingafélagsins Sjóvár. Rannsóknin snýr að 11,6 milljarða króna eiginfjárframlagi íslenska ríkisins. Ríkisstyrkurinn kann að hafa verið veittur í andstöðu við lög að mati stofnunarinnar, samkvæmt því sem fram kemur á vef EFTA.

Íslenska ríkið eignaðist 73 prósenta hlut í Sjóvá í kjölfar samninga um endurfjármögnun á félaginu árið 2009. Fyrir hlutaféð greiddi ríkið með skuldabréfum útgefnum af Landsvirkjun og fjárfestingabankanum Askar Capital metnum að verðmæti 11,6 milljarða króna, en bæði bréfin voru í eigu ríkisins.

Skuldabréfin voru upphaflega seld eignarhaldsfélagi í eigu Glitnis í júlí 2009. Glitnir notaði síðan bréfin sem eiginfjárframlag við endurfjármögnun Sjóvár. Ríkið veitti Glitni 18 mánaða greiðslufrest og bar skuld Glitnis við ríkið enga vexti. Að auki átti Glitnir kost á að borga fyrir skuldabréfin með hlutum í Sjóvá, sem félagið nýtti sér í maí 2010.

Það er frummat eftirlitsstofnunar EFTA að með þessum viðskiptum hafi íslenska ríkið leitt björgunaraðgerðir í þágu ógjaldfærs tryggingafélags. Í fréttatilkynningunni kemur fram að það hafi verið gert án þess að tilkynna það ESA líkt og lög mæli fyrir um. Fram til þessa hafi íslensk stjórnvöld haldið því fram að viðskiptin hafi verið gerð á markaðsforsendum og því hafi engrar tilkynningar verið þörf. ESA hafi þó efasemdir um að markaðsfjárfestar hefðu farið út í slíka fjárfestingu í júlí 2009.

ESA tók mál þetta upp af eigin frumkvæði í kjölfar frétta í fjölmiðlum en síðar barst einnig kvörtun frá keppinauti Sjóvár.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×