Erlent

Fjórtán ára leigumorðingi

Óli Tynes skrifar
Þúsundir manna falla árlega fyrir morðingjum í Mexíkó.
Þúsundir manna falla árlega fyrir morðingjum í Mexíkó.

Þúsundir manna hafa fallið í valinn í Mexíkó ár hvert síðan Felipe Calderon forseti sagði eiturlyfjabarónum stríð á hendur árið 2006. Fjöldamorð eru daglegt brauð. Þar takast á bæði lögreglusveitir og morðsveitir eiturlyfjabaróna, auk þess sem gengin berjast innbyrðis um yfirráð. Leigumorðingjar eru á hverju strái og það hefur vakið óhug að þeir eru að verða sífellt yngri. Allt niður í tólf ára.

Einn þeirra var handtekinn síðastliðinn fimmtudag og reyndist hann vera 14 ára gamall og bandarískur ríkisborgari. Hann var leiddur fyrir fréttamenn þar sem svaraði spurningum. Umhverfis hann stóðu grímuklæddir lögreglumenn en drengurinn sjálfur var með andlitið bert. Hann stóð með hendurnar í vösunum á Cargo gallabuxum sínum og var kotroskinn.

Hann sagðist fá borgað vikulega í dollurum og pesóum og myrða hiklaust alla þá sem honum væri bent á. Spurður um fjögur morð sem hann hefur viðurkennt að hafa framið sagðist hann hafa skorið fólkið á háls.

Bandaríska utanríkisráðuneytið segir að hann muni fá aðstoð eins og hver annar bandarískur ríkisborgari í öðru landi. Hann verði heimsóttur í fangelsið, bent á lögfræðinga og haft eftirlit með velferð hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×