Viðskipti innlent

Engar athugasemdir við samruna Íslandsbanka og GGE

Samkeppniseftirlitið gerir engar athugsemdir við samruna Íslandsbanka og Geysi Green Energy (GGE). Íslandsbanki hefur nú skipað alla stjórnarmenn GGE.

Í ákvörðunarorðum Samkreppniseftirlitsins segir: „Með því að Íslandsbanki hf. skipar allar stjórnarmenn Geysis Green Energy ehf. hefur bankinn náð yfirráðum yfir félaginu. Telst vera um samruna að ræða í skilningi... samkeppnislaga. Samkeppniseftirlitið telur ekki ástæðu til þess að aðhafast frekar vegna samrunans"

Umfjöllun Samkeppniseftirlitsins um málið er birt á vefsíðu þess. Þar segir að m.a. með bréfi, dags. 18 desember 2009, var Samkeppniseftirlitinu tilkynnt um breytt yfirráð yfir Geysi Green Energy ehfen þá lá fyrir að Íslandsbanki myndi hafa yfir öllum stjórnarmönnum GGE að ráða.

Íslandsbanki er viðskiptabanki sem starfar eftir lögum um fjármálafyrirtæki. Íslandsbanki sinnir hefðbundinni viðskiptabankastarfsemi svo sem viðtöku innlána og útlánastarfsemi, miðlun verðbréfa og veitingu fjárfestingarráðgjafar. Helstu samkeppnisaðilar bankans eru önnur fjármálafyrirtæki með jafn víðtæk leyfi til fjármálastarfsemi og bankinn auk félaga með þrengri leyfi til fjármálastarfsemi. Á bankinn eignarhluti í nokkrum atvinnufyrirtækjum og fer með yfirráð yfir sumum þeirra.

GGE á og fer með eignarhluti í ýmsum félögum sem beint eða óbeint starfa á sviði endurnýjanlegra orkugjafa og í skyldri starfsemi. Á meðal dótturfélaga GGE eru HS orka sem selur og framleiðir raforku og Jarðboranir sem hafa með höndum jarðhitaboranir og kjarnaboranir.

Samkeppniseftirlitið hefur áður fjallað um samruna GGE við Jarðboranir annars vegar og HS orku hins vegar. Í ákvörðun nr. 29/2008, Kaup Geysis Green Energy á Jarðborunum, kemur fram að Jarðboranir séu í mjög sterkri stöðu á markaðnum fyrir jarðboranir á Íslandi en ekki kom til íhlutunar í málinu.

Fjallað var um samruna GGE og HS orku í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 30/2009, Samruni Geysir Green Energy og HS orku. Lauk málinu með sátt þar sem GGE samþykkti að tryggja fullan rekstrar- og stjórnunarlegan aðskilnað á milli Jarðborana og HS orku. Var þessum skilyrðum ætlað að draga úr samkeppnislegum vandkvæðum tengdum samrunanum. Fólust þau í þeim lóðréttu tengslum sem mynduðust á milli HS orku og Jarðborana.

HS orka sem orkuframleiðandi er einn af stærstu kaupendum borþjónustu Jarðborana á markaði þar sem afar fáir kaupendur starfa. Taldi Samkeppniseftirlitið að samruninn kynni án skilyrða að skapa hættu á því að Jarðboranir mismunuðu viðskiptavinum sínum á markaði fyrir jarðboranir.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið og atvikum öllum í máli þessu telur Samkeppniseftirlitið ekki sé ástæðu til að aðhafast frekar vegna samrunans.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×