Innlent

Leggja til að tekjujöfnunarframlag verði lagt niður

Reykjavík er stærsta sveitarfélagið.
Reykjavík er stærsta sveitarfélagið.

Starfshópur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um heildarendurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga leggur til að regluverki sjóðsins verði breytt í tveimur áföngum. Fyrst verði tekið upp nýtt kerfi útgjaldajöfnunar og síðan gerð grundvallarbreyting á jöfnunarkerfinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Starfshópurinn leggur til að tekjujöfnunarframlag verði lagt niður í núverandi mynd og tekið upp nýtt fyrirkomulag útgjaldajöfnunar. Fyrst um sinn verði byggt á grunni núverandi kerfis, sem aðgreinir einstakar jöfnunaraðgerðir, t.d. jöfnun vegna grunnskóla.

Ráðherra skipaði starfshópinn í ársbyrjun 2009 og var hlutverk hans að endurskoða laga- og reglugerðarákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Hélt hann 33 fundi auk þess sem fulltrúar hans sátu ársþing landshlutasamtaka sveitarfélaga á liðnu hausti. Hópurinn skilaði tillögum sínum nú í júní.

Starfshópurinn lagði til grundvallar að skýra þyrfti jöfnunarhlutverk sjóðsins og aðskilja þann þátt starfseminnar frá öðrum verkefnum sem sjóðnum hafa verið falin. Það er mat starfshópsins að afar brýnt sé að gera skýran greinarmun á þeim verkefnum sjóðsins sem eru annars vegar jöfnunarverkefni og hins vegar önnur verkefni, sem löggjafinn hefur falið sjóðnum að sinna.

Fyrri þátturinn er meginviðfangsefni Jöfnunarsjóðs, að jafna útgjalda- og tekjumun sveitarfélaga og tryggja að allir íbúar landsins eigi kost á tiltekinni gunnþjónustu. Seinni þátturinn eru viðbótarverkefni sem sjóðnum hefur verið falið að sinna af ýmsum ástæðum en hafa í sjálfu sér lítið með jöfnun að gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×