Viðskipti innlent

FME hefur lokið rannsókn í 50 málum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Fjármálaeftirlitið hefur (FME) hefur haft sjötíu og sjö mál til rannsóknar til þessa dags sem tengjast falli bankanna. Eftirlitið hefur lokið rannsókn í fimmtíu málum og tuttugu og sjö eru enn í rannsókn. Alls hefur FME vísað þrjátíu og einu máli, þar sem grunur er um refsiverða háttsemi, til embættis sérstaks saksóknara.

Þetta kemur fram í fyrstu grein af fjórum í greinaflokki Guðrúnar Jónsdóttur, sviðsstjóra hjá Fjármálaeftirlitinu, í Fréttablaðinu í dag. Guðrún segir að af þeim 27 málum sem tengjast falli bankanna sem enn séu í rannsókn séu rannsóknir á frumstigi í nokkrum tilvikum.

Flest mál sem snerta einstaklinga snúist um innherjaviðskipti. Þá hafi FME rannsakað brot á gjaldeyrisreglum Seðlabankans og skoðað hvort menn eða fyrirtæki hafi farið á svig við höftin, en markmið þeirra er að renna stoðum undir styrkingu krónunnar.

Mörg þeirra mála sem FME rannsakar eru afar flókin og teygja sig yfir landamæri, en FME hefur aflað gagna hjá erlendum eftirlitum og segir Guðrún Jónsdóttir að þeir tölvupóstar sem eftirlitið hafi skoðað skipti núna milljónum.

Í greininni segir að það eigi eftir að taka Íslendinga langan tíma að vinna sig í gegnum þau mál sem hafi komið upp í kjölfar falls bankanna. Regluverkið hafi verið til staðar en því hafi ekki verið framfylgt sem skyldi. Finnski bankasérfræðingurinn Kaarlo Jannari hafi bent á það í skýrslu sinni um regluverkið á íslenskum fjármálamarkaði að aðsópsmiklir aðilar á markaðnum hafi getað fari í kringum lagabókstafinn og eftirlitsaðilar hafi verið of veikburða og skort lagastoð til að bregðast við.

Þá muni þeim málum sem fari til sérstaks saksóknara fjölga á næstunni, en FME hefur sent alls 31 mál þangað vegna gruns um refsiverða háttsemi. Allir hafi nú lært mjög dýra lexíu og ljóst sé að eftirlit verði nákvæmara í framtíðinni auk þess sem eftirlitið muni ganga fram af meiri festu en áður hafi þekkst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×