Viðskipti innlent

Arion banki fær skell vegna Haga

Hlutafjárvirði Haga hleypur á tíu til 21 milljarðs króna. Óvíst er hvernig himinháum skuldum verður breytt. Ekki er útilokað að sá fjárfestir sem kaupir félagið greiði lítið en fái ellefu milljarða króna skuldir í heimanmund.

Arion banki gæti þurft að afskrifa hluta af skuldum Hagasamstæðunnar eða breyta skuldum í hlutafé áður en félagið verður selt eða skráð á markað.

Önnur leiðin væri að selja félagið fyrir tiltölulega lága fjárhæð en láta milljarðaskuldir samstæðunnar fylgja með í kaupunum. Afskriftirnar koma til viðbótar niðurfærslu á tugmilljarða láni bankans til 1998, móðurfélags Haga. Óvíst er hver mikil sú niðurfærsla verður.

Hagar, móðurfélag Hagkaupa, Bónuss og fjórtán annarra verslana, er með þrettán milljarða króna skuld sem fellur á gjalddaga í lok þarnæsta rekstrarárs 2012, líkt og fram kemur í nýbirtum ársreikningi. Rekstrarári Haga lýkur í febrúarlok. Lán félagsins er óverðtryggt í íslenskum krónum.

Eiginfjárhlutfall Haga í lok rekstrarársins var 10,3 prósent samanborið við 10,8 prósent árið á undan. Fram kemur í óformlegu mati IFS að Haga-samstæðan sé of skuldsett og eiginfjárhlutfallið of lágt. Eðlilegra væri ef það lægi í kringum þrjátíu til fjörutíu prósenta í stað tíu.

IFS hefur jafnframt gert óformlegt mat á hugsanlegu virði hlutafjár Haga. Miðað er við að hlutafjárvirði félagsins gæti hlaupið á allt frá tíu milljörðum króna til rétt rúmlega átján. Allt fer það eftir þeim margfaldara sem stuðst er við. Miðað er við margfaldarann 7,0 sem hlutfall heildarvirðis á móti rekstrarhagnaði og sambærilegur við margfaldara verslanasamstæða í öðrum löndum, er virði Haga tæpir 14,2 milljarðar króna.

Rekstrarkostnaður í fyrra var hins vegar hár vegna væntanlegrar skráningar samstæðunnar á markað. Að teknu tilliti til þess hækkar virðið um 6,7 milljarða króna, í tæpan 21 milljarð króna.

Ekki er tillit tekið til sölu á verslunum 10-11 úr Haga-samstæðunni í mati IFS. -jonab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×