Viðskipti innlent

Roksala á Landcruiser-jeppum

Landcruiser
Landcruiser

Toyota á Íslandi hefur selt 145 Landcruiser-jeppa af stærri gerðinni frá áramótum. Ætla má að heildarverðmæti bílanna nemi í kringum 1,5 milljörðum króna.

„Það hefur verið ágæt sala á stærri bílum hjá okkur á árinu,“ segir Páll Þorsteinsson, upplýsingafulltrúi Toyota á Íslandi.

Landcruiser-bílarnir eru af tveimur gerðum: Landcruiser 150, sem kom á markað fyrir ári og kostar á bilinu 8,5 til 12 milljónir króna, og Landcruiser 200 sem kostar upp undir 17,6 milljónir króna. Flestir taka Landcruiser 150 sem kostar tæpar tíu milljónir króna.

Toyota hefur selt 128 Land­cruiser 150 frá áramótum og sautján Landcruiser 200. Enginn Landcruiser 150 er til hjá umboðinu og er þriggja mánaða bið eftir nýjum bíl. Landcruiser 200 hefur tímabundið verið tekinn af markaði.

Frumvarp um breytingar á vörugjöldum liggur nú á borði efnahags- og skattanefndar og gæti orðið að lögum frá Alþingi fyrir áramót. Breytingin felur í sér að vörugjöld á bíla miðast við útblástur í stað vélastærðar. Það þýðir að bíll sem er sparneytinn ber lægri vörugjöld en annar sem mengar meira.

Páll vill ekki segja til um hvort frumvarpið hafi áhrif á bílakaup fólks en útilokar ekki að einhverjir hafi viljað tryggja sér bíl fyrir áramótin.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×