Viðskipti innlent

Um 600 manns hafa nýtt sér lausnir Arion banka

Um sex hundruð einstaklingar og fjölskyldur hafa nú nýtt sér lausnir Arion banka sem kynntar voru í byrjun desember 2009. Um 20% þeirra sem voru með erlend íbúðalán hafa nú þegar breytt þeim í íslensk lán og hefur höfuðstóll þeirra lækkað um allt að 30 til 40 prósent.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Þar segir að auk þessara leiða hefur Arion banki ákveðið að ekki verði krafist uppboða vegna vangoldinna húsnæðislána á þessu ári, óháð því hvort um er að ræða innlend eða erlend lán.

Að meðaltali hefur starfsfólk Arion banka afgreitt um 150 lánabreytingar á viku en lausnir bankans taka mið af misjafnri skuldastöðu viðskiptavina og því hvort um er að ræða erlend eða innlend húsnæðislán. Samhliða því að taka á móti fyrirspurnum ætlar bankinn að eigin frumkvæði að hafa samband við þá viðskiptavini sína sem hvað verst eru staddir til þess að kynna þeim þær leiðir sem í boði eru.

Hermann Björnsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs Arion banka segir að miðað við viðtökur sé greinilegt að bankinn komi til móts við þarfir margra viðskiptavina með sínum lausnum.

„Við bjóðum þessar leiðir fram til 1. júlí næstkomandi og miðað við fyrirspurnir síðustu daga má gera ráð fyrir að fjöldi viðskiptavina okkar breyti lánum sínum á næstu vikum og velji einhverja þessara fjögurra leiða sem þeim stendur til boða, en þær taka mið af misjafnri skuldastöðu viðkomandi og samsetningu lánanna," segir Hermann í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×