Viðskipti innlent

Mjög dregur úr viðskiptum með atvinnuhúsnæði

Mjög hefur dregið úr viðskiptum með atvinnuhúsnæði í kreppunni. Í júní síðastliðnum var 68 kaupsamningum og afsölum um atvinnuhúsnæði þinglýst á landinu öllu. Í sama mánuði árið 2006,þegar viðskiptin voru hvað mest á þessum markaði í aðdraganda þenslunnar sem endaði með bankahruninu, var 311 skjölum þinglýst.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að fjöldi viðskiptanna í júní í ár er því rétt ríflega fimmtungur þess sem hann var í sama mánuði 2006. Kemur þetta fram í gögnum sem Þjóðskrá Íslands birti í gær.

Nokkrar sveiflur geta verið í þessum gögnum á milli mánaða og þannig meira upplýsandi að skoða gögn sem ná til lengri tíma en eins mánaðar. Þannig var þinglýst 523 kaupsamningum og afsölum á fyrri hluta þessa árs samanborið við 1.805 á sama tímabili 2006. Þannig mælt voru viðskiptin á fyrri hluta þessa árs með atvinnuhúsnæði einungis 29% af því sem þau voru árið 2006.

Hrunið á þessum markaði með atvinnuhúsnæði hefur verið öllu meira á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni. Þannig var fjöldi þinglýstra kaupsamninga og afsala með atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu á fyrri hluta þessa árs um 23% af því sem hann var 2007 en 39% á landsbyggðinni. Þenslan á þessum markaði var líka öllu meiri á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

Nú þegar vísbendingar berist víðsvegar úr hagkerfinu um að kreppan hafi náð botni er áhugavert að fjöldi þinglýstra kaupsamninga og afsöl með atvinnuhúsnæði var sá sami á landinu öllu í júní í ár og í sama mánuði í fyrra eða 68.

Samdráttur hefur hins vegar verið síðustu mánuði og þannig var tæplega 18% færri svona samningar á fyrri hluta þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra. Samdrátturinn var 27% á milli fyrri hluta árs 2008 og 2009. Það virðist því hafa hægt á samdrættinum en of snemmt er að segja að kreppan sé búin að ná botni sínum á markaði með atvinnuhúsnæði.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×