Erlent

Aldi bróðir látinn - skiptu heiminum á milli sín

Theo Albrecht lést 88 ára gamall. Myndin er frá 1971.
Theo Albrecht lést 88 ára gamall. Myndin er frá 1971.

Theo Albrecht, sem stofnaði lágvöruverslunarkeðjuna Aldi í Þýskalandi ásamt bróður sínum Karl, er látinn - 88 ára gamall. Bræðurnir voru tveir ríkustu menn Þýskalands frá því hugmynd þeirra að stofna lágvöruverslun gekk upp og sló í gegn.

Samstarf þeirra bræðra endaði reyndar 1961 þegar þeir ákváðu að búa til hinn svonefnda „Aldi-miðbaug" þar sem þeir skiptu heiminum í tvennt og ákváðu að starfa sitt hvoru megin við hin ímynduðu landamæri. Theo Albrecht starfaði í norðrinu og heita búðir hans Aldi Nord meðan Karl Albrecht stofnaði Aldi Sud.

Þýskir fjölmiðlar fjalla mikið um lát Theo Albrechts. Þeir bræðurnir þykja sérstakir persónuleikar sem láta ekki mikið á sér bera. Síðasta ljósmynd sem náðist af þeim saman var til dæmis tekin árið 1971. Það var sama ár og mannræningjar rændu Theo Albrecht og kröfðust lausnargjalds sem var greitt af hendi.

Theo Albrecht lést í borginni Essen í Þýskalandi eftir að hafa glímt við veikindi. Hann var annar ríkasti maður Þýskalands meðan bróðir hans var sá ríkasti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×