Skoðun

Nýrra lausna er þörf

Ari Teitsson skrifar um fjárhagsvanda heimilanna

Helstu orsakir fjárhagsvanda fjölda heimila eru ófyrirséð hækkun lána og þar með aukin greiðslubyrði samfara minnkandi greiðslugetu. Lán þessi eru mörg hver fasteignaveðlán til langs tíma og þá vextir oft 70 - 80 % mánaðarlegra afborgana. Við þær aðstæður er lækkun vaxta jafn mikilvæg og lækkun höfuðstóls. Séu þannig vextir af 30 ára jafngreiðsluláni lækkaðir úr 6 % í 4,5 % (KB banki bauð fyrrum 4,15 %) lækkar mánaðarleg greiðslubyrði um 15 % (sjá ils.is).

Greiðslugeta þjóðarbúsins og heimilanna fer saman og er nú svo skert að þeir svartsýnu nefna mögulegt þjóðargjaldþrot. Við þær aðstæður geta fjármagnseigendur ekki vænst hárra vaxta og gildir það jafnt um lífeyrissjóðina og aðra. Jafnframt verður vaxtamunur lánastofnana að minnka og sá rekstrarkostnaður þeirra sem ímyndað góðæri leyfði gengur nú ekki. Veruleg lækkun vaxta ætti því að vera raunhæfur kostur.

Þá er einnig íhugunarefni að traustar fasteignir hafa mun lengri endingartíma en 30 ár (50 - 100 ár ?). Við minnkandi greiðslugetu þarf því að vera valkostur að hægja á afborgunum vel tryggðra lána enda við núverandi aðstæður mörgum ofviða að eignast dýrt húsnæði á skömmum tíma.

31. júlí sl. birtist í Morgunblaðinu grein eftir Sigmund Guðmundsson, Íslending sem búsettur hefur verið í Svíþjóð sl. 25 ár. Hann tók þar húsnæðislán fyrir 12 árum, greiðir af því markaðsvexti oftast 3 - 4 % en ræður sjálfur hve hratt hann greiðir niður höfuðstól lánsins. Slíkt fyrirkomulag þyrfti að vera valkostur hérlendis.

Það er einnig andstætt þjóðarhag að bjóða upp hýbýli þess fólks sem nú sýnir vilja til að greiða vexti af sínum lánum en hefur um stund ekki getu til að greiða lánin niður.

Því er oft haldið fram að í flóknu þjóðfélagi skorti heildaryfirsýn og því hugsi hver um sína þröngu hagsmuni án tillits til heildarinnar. Sé svo varðandi vanda heimilanna verður því að linna.

Höfundur er eftirlaunaþegi, afi og stjórnarformaður fjármálastofnunnar.




Skoðun

Sjá meira


×