Innlent

Rúmlega tvær milljónir til að rannsaka einelti

Frá afhendingu styrksins.
Frá afhendingu styrksins.

Veittur hefur verið styrkur að fjárhæð 2,2 milljónir króna úr Styrktarsjóði Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar til rannsóknar á einelti gegn börnum á Íslandi. Um er að ræða heildstæða, þverfræðilega rannsókn en markmið sjóðsins er að standa fyrir rannsóknum á einelti og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja einelti og bæta fyrir afleiðingar þess. Styrkurinn var veittur við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu.

Verkefnisstjóri eineltisrannsóknarinnar er Þórhildur Líndal, forstöðumaður Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr í fjölskyldumálefnum. Enn fremur taka Halldór S. Guðmundsson, lektor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands og Halldóra Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Íþrótta-, tómstunda- og þroskaþjálfadeild HÍ, þátt í undirbúningi og umsjón rannsóknarinnar. Umsjón og stjórnsýsla verkefnisins verður í höndum Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr í fjölskyldumálefnum í samvinnu við Félagsráðgjafardeild, Lagadeild og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ráðgefandi sérfræðingur við framkvæmd rannsóknarinnar verður dr. Brynja Bragadóttir.

Markmið rannsóknarinnar er að greina þekkingu á tíðni eineltis, viðbrögð við því og lagaúrræði þegar um einelti er að ræða. Skoðuð verður skilgreining á einelti í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, innan sem utan skólakerfisins og í félagslegri þjónustu við börn. Þá verður rannsakað hvort viðbrögð við einelti séu samræmd af hálfu þeirra sem vinna með börnum. Rannsókninni er ætlað að efla sérfræðiþekkingu á einelti enn frekar og styrkja þannig félagsleg og lagaleg úrræði til að sporna við því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×