Viðskipti innlent

Eik fasteignafélag tapaði 1,2 milljarði í fyrra

Eik fasteignafélag tapaði 1,2 milljörðum kr. á síðasta ári. Velta félagsins var rúmlega 1,7 milljarður króna, sem er 3% lækkun.

Þetta kemur fram í tilkynningu um uppgjör ársins. Þar segir að heildareignir félagsins voru að andvirði 20 milljarðar króna. Handbært fé frá rekstri var 394 milljónir króna.

Tap félagsins skýrist að öllu leiti af því að fasteignir félagsins lækkuðu lítillega að nafnvirði (9,1% að raunvirði), á meðan verð- og gengistryggð lán hækkuðu í takt við verðbólgu og veikingu krónunnar.

Útleigan gekk vel á árinu miðað við aðstæður. Leiguverð náði jafnvægi á seinni hluta árs og óútleigðum einingum fór að fækka.

Veruleg óvissa ríkir um fjármögnun félagsins. Þar sem samningsbundnar afborganir langtímalána eru mjög þungar og þörf er á endurfjármögnun á lánum, sem hafa fallið á gjalddaga, hefur félagið hafið viðræður við kröfuhafa um skuldbreytingar.

Líkleg niðurstaða úr þeim viðræðum er sú að óveðtryggðir kröfuhafar muni breyta kröfum sínum í hlutafé. Forráðamenn félagsins eru bjartsýnir á að samkomulag náist þar sem það eru ríkjandi hagsmunir aðila að félagið lendi ekki í greiðsluþroti.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×