Viðskipti innlent

Hyggjast reisa eldsneytisverksmiðju

Landsvirkjun hefur undirritað viljayfirlýsingu við Carbon Recycling um smíði eldsneytisverksmiðju í Kröflu. Framkvæmdir gætu hafist um mitt næsta ár.

Carbon Recycling er í meirihlutaeigu íslenskra fjárfesta en fyrirtækið hefur á undanförnum árum þróað byltingarkennda aðferð við að breyta koltvísýringi í metanól, sem nota má sem eldsneyti á bíla. Fyrsta verksmiðja félagsins er nú að rísa í Svartsengi við hlið orkuvers HS Orku og er henni ætlað að framleiða allt að fimm milljónir lítra árlega.

En Carbon Recycling ætlar sér stærri hluti og hefur nú samið við Landsvirkjun um að kanna möguleika á eldsneytisverksmiðju við Kröfluvirkjun, sem myndi framleiða allt að 100 milljón lítra árlega af metanóli. Við framleiðsluna yrði notaður koltvísýringsútblástur frá orkuverinu, raforka og vatn. Með því yrði dregið úr útblæstri koltvísýrings um 45 þúsund tonn á ári, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Carbon Recycling.

Gert er ráð fyrir að rannsókn á aðstæðum til framleiðslunnar verði lokið í febrúar. Reynist niðurstöður jákvæðar, samningar nást milli aðila og tilskilin leyfi opinberrra aðila gætu framkvæmdir hafist við Kröflu fyrir mitt næsta ár.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×