Viðskipti innlent

Notendur viðskiptavefsins Meniga 3.000 talsins

Notendur viðskiptavefsins Meniga hjá Íslandsbanka eru nú tæplega 3.000 og þeim fjölgar hratt. Allir viðskiptavinir Íslandsbanka geta fengið aðgang að Meniga í gegnum Netbanka Íslandsbanka.

Í tilkynningu segir að þann 13. janúar kynnti nýsköpunarfyrirtækið Meniga ehf., í samstarfi við Íslandsbanka, byltingakenndan heimilisfjármálavef sem tengdur er við Netbanka Íslandsbanka og ber nafnið Meniga.

Vefurinn hjálpar notendum að öðlast yfirsýn yfir rekstur heimilisins og bendir á raunhæfar leiðir til sparnaðar sem eru sérsniðnar að neyslumynstri notenda. Meniga sækir og flokkar sjálfvirkt allar færslur af bankareikningum og greiðslukortum.

Með einföldum hætti geta notendur fylgst með útgjöldum, tekjum og stöðu fjármála heimilisins á myndrænan og skýran hátt auk þess sem þeir geta borið neyslu sína saman við aðra notendur Meniga.

„Mikil vinna liggur að baki Meniga og það er ótrúlega gefandi eftir þrotlaust starf í langan tíma að finna svo sterkt fyrir því að lausnin sé að hjálpa fólki svo um munar með heimilisfjármálin. Í glóðvolgri þjónustukönnun segjast tæplega 90% notenda munu nota Meniga reglulega í framtíðinni og sama hlutfall segist mæla með lausninni við aðra," segir Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga ehf í tilkynningunni. „Nokkrir erlendir bankar hafa þegar sýnt lausninni áhuga enda áhugasamir um heimilisfjármálalausnir sem spretta upp úr íslenskum aðstæðum eins og þær eru nú."

„Undanfarið hefur Íslandsbanki einbeitt sér að lausnum og úrræðum fyrir viðskiptavini og hefur rutt brautina á því sviði. En um leið er mikilvægt að huga að forvörnum og fræðslu, t.d. með fjármálanámskeiðum og lausnum sem hjálpa viðskiptavinum að bæta fjárhag heimilisins," segir Una Steinsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptabankasviðs Íslandsbanka.

„Meniga er einmitt slíkt verkfæri, en það veitir notendunum nauðsynlega yfirsýn yfir fjármálin og einfaldar heimilisbókhaldið verulega. Móttökurnar eru framar vonum hjá viðskiptavinum sem sýnir þörfina fyrir slíka lausn"








Fleiri fréttir

Sjá meira


×