Viðskipti innlent

Aktu Taktu óheimilt að nota orðið Twister

Hérðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að Aktu Taktu sé óheimilt að nota orðið Twister á matseðlum sínum. Kentucky Fried Chicken (KFC) í Bandaríkjunum eigi réttinn á þessu vörumerki.

KFC höfðaði mál gegn Aktu Taktu vegna málsins. Í dómsorði segir að Aktu Taktu hafi 30 daga til að fjarlægja nafnið af matseðlum sínum en sæti 50.000 kr. dagsektum ella. Jafnframt var Aktu Taktu gert að greiða 800 þúsund kr. málskostnað.

Í niðurstöður dómsins segir að KFC á skráð vörumerkið TWISTER í tveimur flokkum fyrir matvæli. Með þessu merki er tekið þekkt orð í enskri tungu og það notað til að auðkenna tiltekna gerð matvæla. Fær heitið þannig lítillega yfirfærða merkingu sem auðveldar merkinu að aðgreina vöru KFC frá vöru annarra.

Aktu taktu hafi ekki sýnt fram á að heitið verði að teljast almennt og að það hafi glatað sérkennum sínum. Þvert á móti verður merkið talið hafa rík sérkenni og vera vel til þess fallið að aðgreina tiltekna matvöru, eða matvöru sem framreidd er á ákveðinn hátt frá annarri vöru.

Með því að nota þetta heiti í samsetningunni TACO TWISTER hefur Aktu Taktu nýtt sér þetta skráða merki KFC í samsetningu, á sama hátt og KFC. Er augljóst að ruglingshætta er milli vöru­merkis KFC og merkis Aktu Taktu. Hefur Aktu Taktu ekki heimild til að notfæra sér merki KFC með þessum hætti, jafnvel þó hann noti það einungis inni á veitingastöðum sínum.

Hér skiptir engu máli þó Aktu Taktu hafi gert sennilegt að aðrir aðilar kunni að hafa notað svipað heiti, en hann hefur ekki skýrt heimild þeirra aðila til þeirrar notkunar.

Aktu Taktu segir að þeir hafi byrjað að nota merkið TACO TWISTER á árinu 2004. Þá hafði KFC þegar skráð merki sitt. Var Aktu Taktu því óheimilt að nota umrætt heiti.

Í dómsorði segir að Aktu Taktu er óheimilt að nota vörumerkið TWISTER í atvinnustarfsemi sinni, hvort sem er á matseðlum, í kynningum, á heimasíðum eða á annan sambærilegan hátt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×