Viðskipti innlent

Útgreiðslur fastar vegna lagaflækja

Sigríður Mogensen skrifar
Útgreiðslur til þúsund viðskiptavina sem greiddu upp bílalán hjá Glitni fyrir fall bankans eru í uppnámi og fastar inn í þrotabúi bankans vegna lagaflækja. Slitastjórnin og Íslandsbanki eru að skoða málið.

Um er að ræða bílalán í erlendri mynt sem tekin voru hjá gamla Glitni og greidd upp fyrir fall bankans. Lánin færðust ekki yfir í nýja bankann, heldur urðu eftir í þrotabúinu, því búið var að loka lánasamningunum.

Þetta eru 1000 lán og ná þau aftur til ársins 2006. Þangað til Hæstiréttur kvað upp dóm sinn um ólögmæti gengistryggðra lána var litið á þessi lán sem uppgerð og frágengin. Við dóm Hæstaréttar eignuðust þeir sem höfðu ofgreitt af lánum sínum en voru búnir að gera þau upp kröfu í þrotabú Glitnis. Vandinn er hins vegar sá að kröfulýsingafrestur var löngu runninn út og er því óvíst hver lagaleg staða þessara viðskiptavina er.

Slitastjórn Glitnis er að skoða málið og einnig Íslandsbanki, enda er í mörgum tilfellum um að ræða núverandi viðskiptavini þess banka. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka er þess vænst að niðurstaða liggi fyrir innan nokkurra vikna.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×