Viðskipti innlent

Greining spáir óbreyttri verðbólgu í desember

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka í desember um 0,5% frá nóvembermánuði. Gangi spáin eftir verður verðbólgan 2,6% í mánuðinum og óbreytt frá nóvember.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar en Hagstofan mun birta vísitölumælingu sína kl.9 þann 22. desember næstkomandi.

„Ferða- og flutningaliður vísitölunnar leggur til bróðurpart hækkunarinnar þennan mánuðinn að mati okkar. Þannig hækkar VNV um 0,2% vegna hækkunar á eldsneytisverði í spá okkar, og hækkun á flugfargjöldum til útlanda vegur til 0,15% hækkunar VNV. Aðrir liðir hækka líklega lítillega á heildina litið þennan mánuðinn," segir í Morgunkorninu.

Á fyrstu mánuðum nýs árs er útlit fyrir að verðbólga mælist áfram nálægt 2,5% markmiði Seðlabankans. Þannig teljum við að næsta janúarmæling VNV verði á svipuðum nótum og í síðastliðnum janúar, en þá lækkaði VNV um 0,3% á milli mánaða. Útsölulok munu svo ýta vísitölunni nokkuð upp á við að nýju í febrúar og mars líkt og raunin var á sama tíma á þessu ári. Líkur eru á að verðbólguþrýstingur verði lítill næstu misserin. Spáum við 2,3% verðbólgu að meðaltali á næsta ári, og að verðbólga mælist 2,2% að ári liðnu.

Þar er lykilforsenda í verðbólguspá okkar fyrir næsta ár að gengi krónu breytist ekki mikið frá því sem nú er. Krónan hefur verið býsna stöðug frá septemberbyrjun og virðist sem mikil breyting verði tæpast á því a.m.k. ekki fyrr en aflétting hafta kemst á fullan skrið. Við gerum ráð fyrir nánast óbreyttu gengi krónu út næsta ár í spá okkar, en vissulega getur brugðið þar til beggja vona.

Óvissan er sérstaklega mikil þar sem fyrirhugað er að hefja afnám gjaldeyrishafta á næsta ári. Þannig mun umtalsverð veiking myndi fljótt segja til sín í verðbólgu langt umfram markmið Seðlabankans. Á sama hátt gæti veruleg styrking krónu orðið til þess að framkalla tímabundna verðhjöðnun."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×