Viðskipti innlent

Saxbygg gerði verðmat á eigin eignum

Á meðal erlendra eigna Saxbygg sem félagið seldi fyrri eigendum eru fasteignaverkefni í Bretlandi og Þýskalandi. Fréttablaðið/Vilhelm
Á meðal erlendra eigna Saxbygg sem félagið seldi fyrri eigendum eru fasteignaverkefni í Bretlandi og Þýskalandi. Fréttablaðið/Vilhelm
Fyrri eigendur Saxbygg seldu erlendar eignir félagsins fyrir brot af bókfærðu verðmæti þeirra til þriggja fyrirtækja í þeirra eigin eigu eftir að halla tók undan fæti í rekstri félagsins vorið 2008 og ljóst var að stefndi í milljarðatap. Í mars sama ár höfðu lánardrottnar barið á dyrnar og kallað eftir traustari veðum.

Saxbygg tapaði 23,6 milljörðum króna árið 2008 og skuldaði 12,6 milljarða þegar það var tekið til gjaldþrotaskipta í maí í fyrra.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins mat Björn Ingi Sveinsson, framkvæmdastjóri Saxbygg, eignir félagsins í Bretlandi um svipað leyti og ljóst var hvert stefni. Lögfræðistofa í Þýskalandi mat eignir þar. Um haustið voru þær seldar til félaga í eigu eigenda ásamt eignarhlut í norska félaginu Stenia Holding.

Björn er framkvæmdastjóri félaganna sem keyptu eignir Saxbygg. Þá situr einn eigenda þýsku lögmannsstofunnar í stjórn félags tengdu Saxbygg í Þýskalandi.

Verðmat eignanna var allt að þrettán prósent af bókfærðu virði í bókum Saxbygg. Kaupendur greiddu fyrir með kúlulánum sem Saxbygg gaf út og greiðast í einu lagi eftir allt að þrjú ár. Lánin eru í norskum krónum, evrum og pundum og hljóða upp á 5,3 milljarða króna á núvirði. Um þarsíðustu áramót voru eignirnar seldar áfram til félags, sem skráð er í Bretlandi en óvíst hver á.

Björn sagði í yfirlýsingu sem hann sendi í fyrradag eignirnar seldar eftir ítarlegt verðmat og söluna í samráði við helsta lánardrottin og erlenda meðeigendur.

Saxbygg var umsvifamikið á íslenskum fjármála- og fasteignamarkaði. Þeir Gunnar Þorláksson og Gylfi Ómar Héðinsson, eigendur Byggingarfélagsins Bygg, áttu hvor sinn fjórðungshlut en Nóatúnsfjölskyldan svokallaða afgang. Á meðal systkinanna er Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs. Hann flutti lögheimili sitt til Bretlands seint í fyrra.

Skiptastjóri þrotabús Saxbygg sagði í samtali við Fréttablaðið á fimmtudag gjörningana virðast hafa yfirbragð venjulegra viðskipta. Hann dregur þá í efa og krefst riftunar. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×