Viðskipti innlent

Engar upplýsingar að hafa hjá fjármálaráðherra

Engar upplýsingar liggja fyrir um hvert sé áætlað umfang afleiðu- og gjaldmiðlasamninga á íslenskum bankamarkaði frá einkavæðingu ríkisbankanna tveggja. Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra við fyrirspurn Eyglóar Harðardóttur á Alþingi um rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á stórfelldu skattundanskoti.

„Umbeðnar upplýsingar um áætlað umfang afleiðu- og gjaldmiðlasamninga á íslenskum bankamarkaði frá einkavæðingu ríkisbankanna tveggja liggja hvorki fyrir hjá fjármálaráðuneyti né skattrannsóknarstjóra, eða hjá öðrum opinberum aðila eftir því sem næst verður komist," segir í svari ráðherra.

„Við vinnu starfshóps á vegum skattyfirvalda sem settur var á fót í októbermánuði 2009 var aftur á móti aflað upplýsinga um afleiðuviðskipti á árunum 2006 til og með 2008 með milligöngu banka og fjármálastofnana, þar á meðal starfsmanna, tengdra aðila og annarra viðskiptamanna þeirra. Þá var jafnframt skoðað hvort haldið hefði verið eftir fjármagnstekjuskatti af hugsanlegum hagnaði viðskiptamanna líkt og lögboðið er.

Í ljós hefur komið að bankar og fjármálastofnanir stóðu skattyfirvöldum ekki skil á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts af þeim hagnaði, þó að undanskildum einum banka að því er varðar staðgreiðslu af ákveðinni tegund afleiðuviðskipta. Jafnframt liggur fyrir að margir viðskiptavinir bankanna létu hjá líða að gera skattyfirvöldum grein fyrir umræddum viðskiptum á skattframtölum sínum og virðist hagnaður vegna þessa því að mestu leyti vera óskattlagður.

Frekari úrvinnsla gagna stendur yfir hjá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins um þessar mundir. Á þessu stigi liggur ekki fyrir hvert er umfang skattundanskota vegna þessa í krónum talið en ljóst þykir að um verulegar fjárhæðir sé að ræða."

Samskonar upplýsingaskort er að finna í svar fjármálaráðherra um hvert er áætlað umfang kaupréttarsamninga á íslenskum bankamarkaði frá einkavæðingu ríkisbankanna tveggja?

„Umbeðnar upplýsingar um áætlað umfang kaupréttarsamninga á íslenskum bankamarkaði frá einkavæðingu ríkisbankanna tveggja liggja hvorki fyrir hjá fjármálaráðuneyti né skattrannsóknarstjóra, eða hjá öðrum opinberum aðila eftir því sem næst verður komist. Í þessu sambandi er þó rétt að nefna að staðgreiðslu- eða skattskil vegna kaupréttarsamninga virðast hafa verið í betra lagi en í tilviki afleiðu- og gjaldmiðlasamninga," segir í því svari.

Og sama staða er uppi hvað varðar spurningu Eyglóar um hvert sé áætlað umfang niðurfellingar ábyrgða og afskrifta lána til fyrrum starfsmanna og stjórnenda fjármálafyrirtækja frá einkavæðingu ríkisbankanna tveggja?

„Umbeðnar upplýsingar um áætlað umfang niðurfellingar ábyrgða og afskrfta lána til fyrrum starfsmanna og stjórnenda fjármálafyrirtækja frá einkavæðingu ríkisbankanna tveggja liggja hvorki fyrir hjá fjármálaráðuneyti né skattrannsóknarstjóra, eða hjá öðrum opinberum aðila eftir því sem næst verður komist," segir í svari ráðherra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×