Innlent

Fyrirtækin geta ekki búið við áframhaldandi óvissu

Almar Guðmundsson.
Almar Guðmundsson.
Fyrirtækin í landinu geta ekki búið við áframhaldandi óvissu vegna Icesave málsins að mati Félags íslenskra stórkaupmanna. Hætta er á að viðskiptakjör íslenskra fyrirtækja á erlendum mörkuðum versni enn frekar og vantraust aukist.

Í yfirlýsingu sem félag íslenskra stórkaupmanna sendi frá sér í dag er því fagnað sérstaklega að samstaða virðist vera í sjónmáli meðal stjórnmálaflokka í Icesave málinu.

Félagið telur brýnt að málið verði leitt til lykta sem allra fyrst. „Við teljum að þetta sé brýnt úrlausnarefni og í sjálfu sér miðað við ástandið í atvinnulífinu þá teljum við líka að við höfum lítinn tíma sem við megum missa og einnig held ég að það sé mikilvægt að við Íslendingar sýnum samstöðu það hefur skort á undanförnum misserum,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna.

Margir erlendir birgjar brugðust ókvæða við þegar forsetinn synjaði Icesave lögunum staðfestingar. Í umfjöllun erlendra fjölmiðla var því oftast slegið upp að Íslendingar ætluðu ekki að standa við sínar skuldbindingar. Þetta hafði sín áhrif á viðskipti íslenskra fyrirtækja við útlönd.

„Það er auðviað töluvert mismunandi. Í sumum tilvikum er einfaldlega langt viðskiptasamband sem hjálpar fyrirtækju verulega en það eru vissulega fleiri og erfiðari spurningar sem að íslensk fyrirræki þurfa að svara nú en var fyrir tveimur árum síðan,“ segir Almar.

Vantraust í garð íslenskra fyrirtækja jókst í kjölfar bankahrunsins og hefur Icesave málið ekki verið til þess fallið að draga úr því. Þá hafa viðskiptakjör einnig farið versnandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×