Viðskipti innlent

Orkuveitan skilaði tæplega 17 milljarða hagnaði

Valur Grettisson skrifar
Orkuveitan.
Orkuveitan.

Hækkun á gengi íslensku krónunnar og lækkandi fjármagnskostnaður tryggði að rekstur Orkuveitu Reykjavíkur (OR) skilaði 16,8 milljarða króna hagnaði fyrstu níu mánuði ársins samkvæmt tilkynningu frá Orkuveitunni.

Heildarskuldir eru talsverðar, eða 229 milljarðar króna, en hafa lækkað um 12,3 milljarða frá áramótum.

Heildareignir eru 286 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall fyrirtækisins því 20,1%. Árshlutareikningur samstæðu OR var samþykktur á stjórnarfundi í dag.

Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst um 11,5% það sem af er ári. Greiddir vextir fyrstu níu mánuði ársins námu 1,5 milljörðum króna. Samsvarandi fjárhæð 2009 var 4,1 milljarður króna. Vaxtakostnaður lækkar því á milli ára um tvo þriðju, eða 2,6 milljarða.

Ástæðan er að á árinu 2009 þurfti OR að leita á íslenskan lánamarkað, þar sem vextir eru meira en tífaldir meðalvextir erlendra lána OR, sem eru nú 1,01%.

Rekstur Orkuveitu Reykjavíkur var með 16.794 milljóna króna hagnaði fyrstu níu mánuði ársins 2010 samanborið við 11.288 milljóna króna tap á sama tímabili 2009.

Rekstrartekjur tímabilsins námu 19.444 milljónum króna en voru 17.960 milljónir króna sama tímabil árið áður.

Hagnaður fyrirtækisins fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir, EBITDA, var 9.886 milljónir króna samanborið við 8.526 milljónir króna sama tímabil árið áður.

Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 18.395 milljónir króna á tímabilinu, en voru neikvæðir um 15.173 milljónir á sama tímabili árið 2009.

Heildareignir þann 30. september 2010 voru 286.030 milljónir króna en voru 281.526 milljónir króna 31. desember 2009.

Eigið fé þann 30. september 2010 var 57.446 milljónir króna en var 40.657 milljónir króna 31. desember 2009.

Heildarskuldir fyrirtækisins þann 30. September 2010 voru 228.583 milljónir króna en voru 240.868 milljónir króna í árslok 2009.

Eiginfjárhlutfall var 20,1% þann 30. september 2010 en var 14,4% í árslok 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×