Viðskipti innlent

Miklir fjármunir lagðir í rannsóknir á makríl

Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa lagt verulega fjármuni í rannsóknir og þróun veiða á makríl á undanförnum árum um leið og þau hafa smám saman verið að ná tökum á veiðum og vinnslu þessarar mikilvægu uppsjávartegundar. Þetta kom fram á fjölsóttri málstofu um um veiðar og vinnslu á makríl sem sjávarútvegsráðuneytið stóð fyrir í vikunni.

Fjallað er um málið á vefsíðu LÍÚ. Þar er greint frá því að Steinar Ingi Matthíasson, skrifstofustjóri ráðuneytisins, rakti í erindi sínu baráttu Íslands fyrir viðurkenningu sem fullgilt strandríki í viðræðum um heildarstjórn veiða úr makrílstofninum. Hann sagði þjóðréttarlega stöðu Íslands ótvíræða í þessu samhengi og sagði m.a.: „Veiðigögn eru sterkustu rök okkar sem strandríkis." Ísland hefur þekkst boð um þáttöku í strandríkjafundi um makrílveiðar í næsta mánuði.

Otto James-Olsen, fagstjóri uppsjávarveiða hjá Samtökum fiskvinnslustöðva í Noregi, var sérstakur gestur málstofunnar. Hann rakti samskipti Norðmanna og ESB um makrílveiðar en sem kunnugt er hafa þessir aðilar tekist hart á um veiðiréttindi. Hann kom inn á hugsanlega þátttöku Íslands í stjórn veiðanna og sagði að sú aflahlutdeild, sem Ísland kæmi til með að fá ef samningar tækjust, yrði tekin af þeim 572.000 tonna heildarkvóta sem ákveðinn hefði verið fyrir árið 2010.

Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri nytjasatofnasviðs Hafrannsóknastofnunarinnar, fór í mjög fróðlegu erindi yfir þær breytingar sem orðið hafa á göngu makríls í kringum Ísland. Hann sagði umhverfisþætti stýra þessum göngubreytingum, einkum hita- og seltustig sjávar. Þorsteinn sagði að líffræðilega væri um að ræða þrjá makrílstofna sem litið væri á sem einn er kæmi að stjórnun veiðanna.

Mikill fróðleikur um þróun makrílvinnslunnar kom fram í erindi Gunnþórs Ingvasonar, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar á Neskaupsstað. Í erindi hans kom fram að makríll væri við Ísland í þrjá mánuði og aðeins veiðanlegur í tvo ef ná ætti sem mstum verðmætum úr aflanum. Gunnþór taldi skipulag veiðanna í fyrra hafa valdið því að 4,5 milljörðum króna minna fékkst fyrir afurðirnar en ef útgerðir hefðu getað stýrt veiðunum sjálfar.

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Hugins hf. í Vestmannaeyjum, fór yfir reynslu fyrirtækisins í makrílveiðum en fyrirtækið hefur verið í fararbroddi í tilraunaveiðum á nýjum nytjastofnum við landið, m.a. gulldeplu á síðasta ári. Hann sagði dýrmæta reynslu hafa áunnist en benti á að menn væru rétt að byrja að læra á útbreiðslu og hegðan makrílsins. Páll tók undir orð Gunnþórs um stjórn makrílveiðanna í fyrra og sagði þær hafa verið „sóun á verðmætum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×