Innlent

Árni Páll: Dapurleg skilaboð Bjarna til almennings

Mynd/GVA
„Þetta eru dapurleg skilaboð til almennings og fyrirtækja í landinu sem þurfa fyrst og síðast á því að halda að fá fyrirheit um að losna við þann ömurlega óstöðugleika sem fylgir hinni íslensku krónu. Skuldavandi heimila og fyrirtækja er bein afleiðing krónunnar og þeirra ofurvaxta og óstöðugleika sem einkennt hafa hana alla tíð. Það er tímanna tákn að Sjálfstæðisflokkurinn treystir sér ekki til þess að mæta þörfum atvinnulífsins um nothæfan gjaldmiðil og eðlileg samskipti við önnur ríki," segir Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, um ræðu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, á landsfundi flokksins í dag.

Þar sagði Bjarni að við núverandi aðstæður væri réttast að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka en ef umsókninni verði haldið til streitu beri að vinna að því að tryggja hagsmuni Íslands. Hann sagði að réttast að fara fara þessa leið, ekki bara vegna framkominna hótana um að ekkert verði af samkomulagi nema Ísland gangi að afarkostum Breta, heldur til þess að hægt væri að nýta alla krafta til að sigrast á þeim efnahagserfiðleikum sem Íslandi glími við.

Árni Páll gefur lítið fyrir yfirlýsingu Bjarna. „Það er óskiljanlegt ef stjórnmálaflokkar eru svo úr takti við það sem er að gerast í samfélaginu þessa dagana að þeir haldi að ónýt króna sem hvorki er hægt að gengistryggja né verðtryggja sé boðleg sem gjaldmiðill fyrir fólk og fyrirtæki til frambúðar."


Tengdar fréttir

Bjarni Ben vill leggja aðildarumsókn til hliðar

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að við núverandi aðstæður væri réttast að leggja aðild að Evrópusambandinu til hliðar. Þetta kom fram ræðu hans á setningu Landsfundar Sjálfstæðisflokksins klukkan fjögur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×