Innlent

Lítil viðbrögð vegna aðildarviðræðna

Hafsteinn Hauksson. skrifar
Ekki bólar á miklum viðbrögðum ráðuneyta vegna aðildarviðræðna.
Ekki bólar á miklum viðbrögðum ráðuneyta vegna aðildarviðræðna.

Fæst ráðuneyti hafa bætt við starfsmannahald sitt vegna aðildarviðræðna við Evrópusambandið, og ekkert þeirra hefur keypt utanaðkomandi ráðgjöf. Þau gera ekki ráð fyrir miklum skipulagsbreytingum vegna viðræðnanna.

Í svörum allra ráðherra við fyrirspurn þingmannsins Gunnars Braga Sveinssonar um umsókn um aðild að Evrópusambandinu kemur fram að ekkert ráðuneyta ríkisstjórnarinnar eða undirstofnana þeirra hafi fjölgað í starfsmannaliði sínu vegna umsóknarinnar. Eina undantekningin er þýðingarmiðstöð utanríkisráðuneytisins, þar sem fjölgunin nemur níu starfsmönnum auk þess sem fyrirhugað er að ráða allt að 14 þýðendur síðar á árinu. Í svari sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kemur reyndar fram að mikil þörf væri á að fjölga í starfsliðinu, þó það hafi ekki verið gert.

Þá kemur jafnframt fram að ekkert ráðuneytanna hefur keypt utanaðkomandi ráðgjöf vegna aðildarumsóknarinnar, fyrir utan tilfallandi þýðingarvinnu.

Í svörum margra ráðherra segir að starfsmenn ráðuneytanna og undirstofnana þeirra hafi sinnt vinnu við aðildarumsókn Íslands að ESB meðfram venjubundnum verkefnum sínum, eða til viðbótar við þau.

Þá kemur fram að flest ráðuneytin telja ekki þörf á breytingum á skipulagi ráðuneytanna eða stofnana þeirra vegna aðildarferlisins. Forsætisráðuneytið segir þó að sé litið á stjórnsýsluna í heild megi gera ráð fyrir nokkrum breytingum á fyrirkomulagi hennar og stofnanauppbyggingar eftir að fyrir liggur niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning. Þá segir fjármálaráðuneytið að unnið sé að kortlagningu þessara breytinga. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið segir að verulegar breytingar verði á stjórnsýslu á sviði Landbúnaðar ef til aðildar kemur.

Eins og fram hefur komið í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis er gert ráð fyrir allt að 990 milljóna beinum kostnaði við aðildarviðræður við Evrópusambandið fram til ársins 2012, einkum við þýðingarvinnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×