Viðskipti innlent

Yfir 800 leigusamningum þinglýst í október

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Höfuðborgarsvæðið. Mynd/ Vilhelm.
Höfuðborgarsvæðið. Mynd/ Vilhelm.
Alls voru 840 leigusamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst á landinu í október. Þetta eru mun færri samningar heldur en í septembermánuði síðastliðnum, en þá var 1.553 leigusamningi þinglýst. Það var jafnframt mesti fjöldi leigusamninga sem þinglýst hefur verið innan eins mánaðar það sem af er þessu ári.

Greining Íslandsbanka segir að eðlilegt sé að leigusamningar séu heldur færri nú enda sé mikil árstíðarsveifla í sókn í leiguhúsnæði og rjúki fjöldi samninga jafnan upp fyrst á haustin og jafnast svo út þegar líða tekur á veturinn. Leigusamningar í október síðastliðnum voru jafnframt lítillega færri en í sama mánuði fyrir ári síðan þegar samtals 855 leigusamningum var þinglýst.

Það sem af er þessu ári hefur samtals 9.064 leigusamningum um íbúðarhúsnæði verið þinglýst, sem er fækkun um 109 samninga frá sama tímabili fyrra árs en þá hafði 9.173 samningum um leiguhúsnæði verið þinglýst. Þrátt fyrir að sókn í leiguhúsnæði sé enn talsvert meiri en var fyrir hrun þá virðist engu að síður sem sóknin sé að dragast örlítið saman frá því þegar mest var eftir hrun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×