Viðskipti innlent

Útsvarstekjur hækki um 16,6 prósent

Suðurnesjamenn fóru nýlega í svokallaða Keflavíkurgöngu til að berjast fyrir nýjum stórframkvæmdum í atvinnumálum. Trúin á að þær verði að veruleika setur mark sitt á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins á þessu ári.
Fréttablaðið/Stefán
Suðurnesjamenn fóru nýlega í svokallaða Keflavíkurgöngu til að berjast fyrir nýjum stórframkvæmdum í atvinnumálum. Trúin á að þær verði að veruleika setur mark sitt á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins á þessu ári. Fréttablaðið/Stefán

Fjárhagsáætlun, sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti á þriðjudag, hefur það að forsendu að 2.700-2.900 ný störf skapist í sveitarfélaginu vegna ýmissa nýframkvæmda á þessu ári, svo sem álver og höfn í Helguvík, virkjanir og gagnaver á Keflavíkurflugvelli.

Nýframkvæmdirnar auki útsvarstekjur sveitarfélagsins um 680 milljónir króna, eða um 16,6 prósent frá síðasta ári. Bæjarsjóður skili þannig 47,2 milljóna króna tekjuafgangi.

Áætlunin gerir ráð fyrir því að launakostnaður bæjarins hækki um þrjú prósent en rekstrargjöld lækki um fimm prósent milli ára, úr 8,3 milljörðum króna í 7,7 milljarða á þessu ári.

Íbúar Reykjanesbæjar eru rúmlega 14.000 talsins og fækkaði um 118 frá 2008 til 2009. Nú er gert ráð fyrir að þeim fjölgi í ár um 280 manns.

„Þar sem tafir hafa orðið á mörgum stórum verkefnum, verða tekjur af þeim lægri á þessu ári, en vænta mátti. Engu síður skapa þau stórbætta fjárhagsstöðu bæjarins á þessu ári,“ segir í bókun meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórninni.

Í bókun minnihlutans segir að áætlun meirihlutans byggi á væntingum um tekjur, sem alls ekki eru í hendi og á niðurskurði sem eigi sér vart hliðstæðu.

„Fræðslusviðið sem heldur utan um leik- og grunnskólastarf þarf að skera niður um 355 milljónir á árinu og það er rúmlega tvöfaldur sá niðurskurður sem Reykvíkingum er ætlað að taka á sig,“ segir minnihlutinn.

Niðurskurður á fræðslusviði sé 10,7 prósent að teknu tilliti til framreikninga, fjölskyldu- og félagssvið skeri niður um 14,5 prósent, íþrótta- og tómstundasvið um 14,4 prósent, menningarsvið um 14,7 prósent og umhverfis- og skipulagssvið um 22,8 prósent.

„Við skulum vona að niðurstaða þessarar áætlunar gangi eftir en verum þess jafnframt viðbúin að það muni skeika um hundruð milljóna eða jafnvel milljarða,“ segir minnihlutinn.

Árni Sigfússon bæjarstjóri svaraði með annarri bókun þar sem segir að þrátt fyrir vantrú Samfylkingar munu sjálfstæðismenn halda ótrauðir áfram að koma álversverkefninu í Helguvík fram og trúa þar af leiðandi á eðlilega tekjuaukningu sem af því hlýst.

peturg@frettabladid.is

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×