Viðskipti innlent

SA: Snúa verður hallarekstri ríkissjóðs yfir í afgang

Einn meginþátturinn í endurreisn íslensks efnahags er að snúa hallarekstri ríkissjóðs við þannig að afgangur verði á rekstrinum. Þetta sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), á morgunverðarfundi SA í morgun þar sem nýtt rit SA um nauðsynlegar umbætur í fjármálum hins opinbera var kynnt.

Fjallað er um fundinn á vefsíðu SA. Þar kemur fram að Vilhjálmur sagði fjármál hins opinbera hafa margvísleg áhrif á atvinnulífið og móta starfsskilyrði og samkeppnisstöðu þess. Opinberu fjármálin hafi t.a.m. áhrif á verðbólgu og vexti og þar með á hagvöxt, sköpun starfa og kaupmátt launa. Traust opinber fjármál séu því ein grundvallarforsenda þess að unnt verði að sækja fram til bættra lífskjara.

Í kynningu Vilhjálms undirstrikaði hann að svigrúm ríkisstjórnarinnar til skattahækkana á árunum 2009-2011 sé fullnýtt og markmiðum um bætta afkomu ríkissjóðs 2011 verði að ná með gjaldalækkunum. Vilhjálmur sagði jafnframt að hvergi mætti hvika frá markmiðum um jöfnuð í opinberum fjármálum árið 2013 en árlegur hagvöxtur þurfi að vera um 5% eigi það markmið að nást.

Vilhjálmur sagði skort á samstöðu í ríkisstjórn seinka viðsnúningi í efnahagslífinu og hagvexti en stjórnvöld og atvinnulíf verði að sameinast um raunverulegar aðgerðir til að örva hagvöxt.

Húsfyllir var á morgunverðarfundi SA en yfir 200 manns mættu til fundarins sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík.

Auk Vilhjálms Egilssonar fluttu erindi Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og David Croughan frá samtökum atvinnulífsins á Írlandi. Í umræðum tóku þátt Bjarni Benediktsson, alþingismaður, Kirstín Flygenring hagfræðingur, Oddný G. Harðardóttir, alþingismaður, Steingrímur Ari Arason, forstjóri og Sigríður Guðjónsdóttir lögreglustjóri.

Fundarstjóri var Margrét Kristmannsdóttir, formaður SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×