Viðskipti innlent

Þorskveiðin aukin um tíu þúsund tonn

Aukinn þorskkvóti og aukinn kvóti til veiða á hrefnu og langreyði er meðal þeirra tillagna sem Hafrannsóknastofnun kynnti í gær. Hins vegar þurfi að draga saman veiðar á ýsu og ufsa.
Aukinn þorskkvóti og aukinn kvóti til veiða á hrefnu og langreyði er meðal þeirra tillagna sem Hafrannsóknastofnun kynnti í gær. Hins vegar þurfi að draga saman veiðar á ýsu og ufsa. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM
Hafrannsóknastofnun leggur til að þorskkvóti verði aukinn um 10.000 tonn á næsta fiskveiðiári þannig að leyfilegur hámarksafli verði 160.000 tonn.

Stofnunin kynnti í gær skýrslu um ástand nytjastofna sjávar, þróun veiða og stofnstærð, auk þess að kynna tillögur um hámarksafla um þrjátíu fiskistofna á næsta ári.

Tillaga um 160.000 tonna hámarks­afla þorsks byggist á því að sjávarútvegsráðherra ákveði að fylgja þeirri nýtingarstefnu sem ákveðið hefur verið að fylgja næstu fimm ár.

Hún felur í sér reglu um að leyfa skuli veiðar á 20 prósentum af viðmiðunarstofni fjögurra ára þorsks og taka að auki tillit til leyfilegs afla á yfirstandandi ári að hálfu leyti. Það þýðir að miðað við mat Hafrannsóknastofnunar um að sá stofn sé nú um 850.000 tonna viðmiðunarstofn og að teknu tilliti til 150.000 tonna hámarksafla á þessu fiskveiðiári verði leyfilegur afli fiskveiðiársins, sem hefst 1. september næstkomandi, 160.000 tonn.

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar er hnykkt á því að Alþjóðahafrannsóknaráðið telji að þessi nýtingarstefna samræmist alþjóðlegum samþykktum um varúðarsjónarmið og hámarksnýtingu. „Löngu er þekkt að aflamark og þorskafli hafa einatt verið verulega umfram ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar en mikil breyting til batnaðar hefur orðið þar á með tilkomu mótaðrar nýtingarstefnu og setningu aflareglu," segir Hafró.

Í mörgum öðrum tegundum sé aflinn umfram ráðgjöf stofnunarinnar og sé brýnt að gera breytingu á því.

Í öðrum helstu nytjategundum leggur stofnunin til að leyfður ýsuafli verði 45.000 tonn. Í fyrra taldi stofnunin óhætt að veiða 57.000 tonn af ýsu en ráðherra ákvað að heimila veiði á 63.000 tonnum. Þá er gerð tillaga um 40.000 tonna hámarksafla á ufsa, sem er aukning um 5.000 tonn frá tillögu síðasta árs. Ráðherra fylgdi ekki þeirri tillögu heldur leyfði veiðar á 50.000 tonnum af ufsa.

Hafró leggur til að leyfðar verði auknar hvalveiðar á grundvelli nýrra úttekta Alþjóðahvalveiðiráðsins og NAMMCO. Veiða megi 216 hrefnur í stað 200 á þessu ári og 154 langreyðar í stað 150.

peturg@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×