Viðskipti innlent

Fundur Steingríms: Norðmenn fresta ekki láni sínu

Niðurstaða af fundi Steingríms J. Sigfússon fjármálaráðherra með fjármála- og utanríkisráðherrum Noregs er að Norðmenn munu ekki fresta lánveitingu sinni til Íslands þrátt fyrir óvissuna sem komin er upp í Icesave málinu.

 

Þetta kemur fram á vefsíðu Dagens Næringsliv. „Ég er mjög ánægður með samræðurnar sem ég hef átt við bæði Sigbjörn Johnsen og Jonas Gahr Störe," segir Steingrímur í samtali við vefsíðuna. „Norðmenn hafa mjög jákvæða afstöðu og það er afar mikilvægt."

 

Aðspurður um hvort Noregur væri þar með orðinn mikilvægasti stuðningsaðili Íslands segir Steingrímur að það sé alveg á hreinu.

 

Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, segir að Norðmenn muni standa við skuldbindingar sínar við Íslendinga. Stjórnvöld á Íslandi hafi sýnt hugrekki með að lýsa því yfir að landið muni standa við sínar skuldbindingar. Störe segir einnig að Norðurlöndunum beri að koma því til skila við Alþjóðagaldeyrissjóðinn að áætlun hans fyrir Ísland haldi sínu striki.

 

Störe gefur jafnframt í skyn við vefsíðuna að jafnvel að þótt Íslendingar hafni Icesave frumvarpinu eigi það ekki að hafa áhrif á stuðning Noregs.

 

Steingrímur J. Sigfússon hélt síðan frá Noregi og til Kaupmannahafnar eftir fundinn með norsku ráðherrunum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×