Innlent

Svikahrappurinn var náðaður fyrir áratug

Maðurinn er talinn hafa egnt fyrir fólk meðal annars með því að lofa því góðri ávöxtun á fjármunum sínum ef það aðstoðaði hann við að losa gjaldeyri með fjárframlögum.
Maðurinn er talinn hafa egnt fyrir fólk meðal annars með því að lofa því góðri ávöxtun á fjármunum sínum ef það aðstoðaði hann við að losa gjaldeyri með fjárframlögum.
Hálfsextugur karlmaður sem situr í gæsluvarðhaldi vegna meintra stórfelldra fjársvika var náðaður af heilsufarsástæðum fyrir um tíu árum og þurfti því ekki að afplána tuttugu mánaða fangelsi, sem Hæstiréttur hafði þá dæmt hann í, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins. Dómsmálaráðuneytið vildi ekki staðfesta þetta við blaðið.

Maðurinn var dæmdur fyrir misneytingu gagnvart áttræðri, heilabilaðri konu, með því að hafa fengið hana margoft til að taka fjárhæðir út af bankareikningi sínum og afhenda honum, ráðstafa veðskuldabréfi í hans þágu og undirrita erfðaskrá þess efnis að allar skuldir hans við hana skyldu falla niður við andlát hennar.

Konan hafði verið gift athafnamanni, sem lét eftir sig mikla fjármuni. Hún sat í óskiptu búi. Manninum sem nú situr inni vegna meintra fjársvika kynntust hjónin þegar hann tók að sér málningarvinnu fyrir þau. Eftir fráfall eiginmannsins var svikarinn í miklu sambandi við ekkjuna, ávann sér traust hennar og annaðist ýmsa hluti fyrir hana. Maðurinn ók henni í bankann og beið fyrir utan meðan hún sótti peningana, sem hún lét hann hafa. Í sumum tilvikum lét hún hann hafa ávísanir. Með þessum hætti tæmdi hún bankareikning sinn. Ekki var ljóst hvað varð um stóran hluta fjárins.

Auk tuttugu mánaða fangelsis var maðurinn dæmdur til að greiða gömlu konunni ríflega 30 milljónir króna vegna þessa. Hámarksrefsing fyrir brot af þessu tagi er 24 mánaða fangelsi. Þessi sami maður hefur nú verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 10. maí, grunaður um að hafa svikið að minnsta kosti 300 milljónir króna út úr nær hundrað manns. Mest voru umsvif mannsins í Landsbankanum og hjá Byr sparisjóði, en allir reikningar hans eru til rannsóknar hjá lögreglu.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins er maðurinn grunaður um að hafa boðið fólki væna ávöxtun fjár síns ef það hjálpaði honum til að losa gjaldeyri sem hann kvaðst eiga í bönkum erlendis. Fengju viðkomandi þá erlendan gjaldmiðil á miklu lægra verði en skráning segði til um. Þetta er á sömu nótum og margumræddir Nígeríusvindlarar hafa borið sig að. Þá virðist sem maðurinn hafi í einhverjum tilvikum notað fjármuni frá einum til að greiða með skuld sína við annan.

Maðurinn mun hafa haft frumkvæði að því að komast í samband við fólk, þar á meðal einhverja sem hann þekkti frá fyrri tíð.

jss@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×