Viðskipti innlent

Fákeppni einkennandi á mörgum sviðum

Neytendasamtökin segja fákeppni einkennandi á mörgum sviðum fyrir íslenskan markað og nefna matvörumarkaðinn sérstaklega.
Neytendasamtökin segja fákeppni einkennandi á mörgum sviðum fyrir íslenskan markað og nefna matvörumarkaðinn sérstaklega. Mynd/Anton Brink
Neytendasamtökin ítreka fyrri kröfur sínar um að samkeppnissjónarmið verði höfð í fyrirrúmi þegar fyrirtæki eru seld eða endurskipulögð í kjölfar hrunsins. Einnig minna samtökin á mat samkeppnisyfirvalda á Norðurlöndum um að virk samkeppni flýti fyrir efnahagsbata.

„Á mörgum sviðum er fákeppni einkennandi fyrir íslenskan markað. Þetta á ekki síst við um matvörumarkaðinn sem getur haft afgerandi áhrif á afkomu heimilanna, en á einnig við um byggingavörumarkaðinn og mörg önnur svið viðskipta. Nú eru stór fyrirtæki á þessum sviðum komin í eignarhald fjármálafyrirtækja. Það skiptir því miklu máli hvernig fjármálafyrirtækin halda á spilum sínum og hvort tækifærið verði nýtt til að örva samkeppni," segir á vef Neytendasamtakanna.

Þar hvetur stjórn samtakanna stjórnvöld og fjármálafyrirtæki til að hafa samráð við samkeppnisyfirvöld þegar kemur að endurskipulagningu eða sölu fyrirtækja sem eru komin í hendur fjármálafyrirtækja.

„Þá ber einnig að huga að stefnumörkun til að tryggja nýir aðilar geti komist inn á markaðinn. Ekki er síst mikilvægt að beina sjónum að sviðum sem hafa mikil áhrif á afkomu almenning. Markmiðið hlýtur að vera að stuðla að aukinni samkeppni öllum landsmönnum til hagsbóta."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×