Lífið

Flauta og píanó í forgrunni

Flautuleikarinn Martial Nardeau spilar í Salnum í Kópavogi í dag ásamt píanóleikaranum Désiré N´Kanoua.
fréttablaðið/valli
Flautuleikarinn Martial Nardeau spilar í Salnum í Kópavogi í dag ásamt píanóleikaranum Désiré N´Kanoua. fréttablaðið/valli
Flautuleikarinn Martial Nardeau og píanóleikarinn Désiré N"Kaoua spila í Salnum í Kópavogi í dag klukkan 17. Flutt verða verk eftir Bach, Schubert, Roussel, Poulenc og Prokofief sem voru samin fyrir flautu og píanó.

„Við erum búnir að æfa okkur vel. Við æfðum aðeins í París í jólafríinu og svo aftur núna. Þetta er mikið prógram. Þetta eru allt mjög falleg verk og eiginlega uppáhaldsverkin okkar eftir þessa höfunda,“ segir Martial, sem hefur verið búsettur á Íslandi síðan 1982. Hann er fastráðinn við Sinfóníuhljómsveit Íslands og kennir í Listaháskóla Íslands. Hann er einnig virkur einleikari og hefur meðal annars leikið einleikskonserta með hljómsveitum hér á landi og erlendis.

Désiré N"Kaoua, sem er fæddur í Alsír, er mjög virtur píanóleikari. Hann er eftirsóttur einleikari með ýmsum hljómsveitum, þar á meðal Fílharmoníuhljómsveitum Berlínar, Varsjár, Aþenu og í Sviss. Árið 1998 var hann gerður að opinberum sendiherra franskrar tónlistar. Désiré hefur þrisvar sinnum áður spilað hér á landi en þetta verður í fyrsta sinn sem hann spilar með Martial. „Hann var kennari þar sem ég lærði í Frakklandi og kennarinn minn spilaði með honum. Hann er með mjög mikla reynslu,“ segir Martial, sem hlakkar mikið til að spila með píanóleikaranum snjalla.

Aðspurður segist Martial alltaf hafa nóg að gera. Hann er nýkominn frá Póllandi þar sem hann spilaði á tónlistarhátíð og í sumar fer hann til Mallorca þar sem hann verður á annarri hátíð. Hann hvetur alla áhugamenn um falleg tónverk að mæta á tónleikana í dag. „Ég hef ekki spilað á svona tónleikum með píanóundirleik mjög lengi. Þetta verður mjög gaman.“ freyr@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.